Störf nefndar um stefnu í landbúnaðarmálum

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 13:39:04 (4326)

1997-03-12 13:39:04# 121. lþ. 88.1 fundur 338. mál: #A störf nefndar um stefnu í landbúnaðarmálum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[13:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Rétt eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda var það svo að þegar við ræddum hér á hv. Alþingi um breytingar á búvörusamningi sem einkum tóku til sauðfjárræktar, í lok árs 1995 og í upphafi árs 1996, var rætt um hvernig ná mætti aftur samstarfi við þá aðila sem áður höfðu tekið þátt í viðræðum um landbúnaðarmál ásamt Bændasamtökunum og landbrn. og gengu venjulega, og ganga reyndar enn, undir heitinu sjömannanefnd. Einnig var rætt um einhvers konar annað nefndarstarf ef þetta sjömannanefndarstarf yrði ekki endurvakið.

Á fyrri hluta seinasta árs fóru fram miklar viðræður milli þeirra aðila sem áttu áður aðild að sjömannanefndinni um hvort þeir væru tilbúnir til þess að koma til þess nefndarstarfs á nýjan leik. Og ég átti æðimörg samtöl við fulltrúa Alþýðusambandsins, BSRB og vinnuveitenda, bæði Vinnumálasambandsins og Vinnuveitendasambands Íslands, sem höfðu átt aðild að því nefndarstarfi. Niðurstaða þess varð sú að allir þessir aðilar voru tilbúnir til að koma að borðinu aftur, setjast niður og ræða þessi mál áfram, þrátt fyrir nokkurt hlé sem hafði orðið á nefndarstarfinu. Var nefndin skipuð á nýjan leik með bréfi ráðneytis 23. sept. 1996, þ.e. allmargir mánuðir liðu áður en tókst að koma starfinu á að nýju. Það var sem sagt að undangengnum miklum viðræðum við málsaðila.

Niðurstaðan varð sú að að þessu nefndarstarfi kæmu á nýjan leik Alþýðusambandið, BSRB, Vinnumálasambandið, Vinnuveitendasamband Íslands, Bændasamtökin og landbrn. Með bréfi dags. 2. des. 1996 dró Alþýðusambandið hins vegar fulltrúa sinn aftur út úr þessari nefnd þar sem ákvörðun hafði verið tekin á fundi sambandsstjórnar ASÍ að draga fulltrúa sambandsins úr opinberu starfi að málefnum landbúnaðarins. Mér þótti þetta mjög miður og harma enn að svo skyldi fara, en leyfi mér að hafa væntingar um að það kunni að koma að því aftur að þessir aðilar séu tilbúnir til þess að ræða við okkur. Nefndarstarfið hefur þrátt fyrir þetta haldið áfram þó að kannski sé ekki réttnefni lengur að kalla nefndina sjömannanefnd. Ég hef hins vegar átt viðræður við málsaðila eftir að þessi breyting varð á nefndarstarfinu og segi þetta nú af því að þó að staðan sé þessi í augnablikinu, þá leyfi ég mér að hafa væntingar um að aftur kunni að skipast svo veður í lofti að við getum haldið þessu nefndarstarfi áfram með öllum aðilum. En það heldur áfram þrátt fyrir þessa breytingu.

Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar er hlutverk hennar:

1. Athugun á rekstrarskilyrðum landbúnaðarins hérlendis í samanburði við nágrannalöndin.

2. Athugun á verðlagningu búvara og samkeppnislöggjöf með hliðsjón af hliðstæðum í nágrannalöndum okkar.

3. Innflutningsverð fyrir landbúnaðarvörur.

4. Hagræðing við framleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða.

5. Smásöluverslunin og verðlagslöggjöf um viðskipti með búvörur.

Ákveðið er síðan að nefndin móti umfjöllun þessara málaflokka og annarra sem tengjast stefnumörkun að mati nefndarinnar. Út af fyrir sig er því hægt að taka fleira upp í þessu nefndarstarfi þótt þetta séu aðalatriðin eins og þau eru tilgreind í erindisbréfinu.

Í þriðja lagi er spurt um skil nefndarinnar. Í erindisbréfinu er ekki uppálagt að skila tillögum innan ákveðins tiltekins tíma. Það varð nokkur dráttur á störfum nefndarinnar í haust meðan óvissa var um áframhaldandi þátttöku ASÍ í nefndinni og hún hóf náttúrlega ekki störf fyrr en eftir 23. september. En skipulagi nefndarinnar hefur verið deilt á nokkra verkþætti og undirhópar starfa þar að. Þar má fyrst nefna hóp sem fjallar um rekstrarskilyrði landbúnaðarins í samanburði við nágrannalöndin og um innflutningsvernd fyrir landbúnaðarafurðir. Í öðru lagi um verðlagningu landbúnaðarafurða og samkeppnislöggjöfina. Og í þriðja lagi um mjólkurframleiðslu og vinnslu mjólkurafurða. En þess ber að geta sérstaklega að ljóst er að það er mjög áríðandi að ljúka áliti um mjólkurframleiðsluna og vinnslu mjólkurafurðanna þar sem núgildandi samningur um þann hluta búvörusamningsins rennur út næsta haust. Því er á dagskrá að ljúka vinnu sjömannanefndarinnar um þetta atriði í vor þannig að samningar í framhaldi af því geti orðið í sumar og til staðfestingar á næsta hausti.