Sláturkostnaður

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 13:59:28 (4333)

1997-03-12 13:59:28# 121. lþ. 88.2 fundur 379. mál: #A sláturkostnaður# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin og þá umræðu sem fram hefur farið, þakka svörin að því leyti sem svör hafa fengist. Þau voru skýr svo langt sem þau náðu, en ég hlýt að óska eftir því við hæstv. landbrh. að þessar upplýsingar liggi fljótlega fyrir. Í vinnu að úrbótum fyrir bændastéttina þurfa slíkar grunnupplýsingar að vera öllum ljósar og aðgengilegar.

Vandinn er milliliðir kom fram hjá einum hv. þm., en samt er það svo að margir sláturleyfishafar gefa afslátt af sínum hlut. Nefnt var að eftirlitskerfið væri flókið og ekki síst þess vegna vildi ég fá fram sundurliðun á þessum sláturkostnaði. Ég vil því ítreka þá ósk mína að þessar upplýsingar liggi fyrir.

Ég ítreka einnig að vísitala neysluverðs fyrir búvörur fer lækkandi núna síðustu fimm árin meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 14 stig eða 8,7%, þannig að við sjáum að sauðfjárbændur hafa tekið vel á og reyndar verið látnir taka svo mjög á að þeir eiga erfitt með að lifa af afrakstri búa sinna.