Sláturkostnaður

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:01:09 (4334)

1997-03-12 14:01:09# 121. lþ. 88.2 fundur 379. mál: #A sláturkostnaður# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins út af orðum hv. fyrirspyrjanda aftur um það að fá fram þessar tölur. Ég ítreka það sem fram kom í fyrra svari að það eru upplýsingarnar frá fimm manna nefnd sem ég hef á að byggja og get ekki sótt þær annað heldur en þangað. Ég hef reynt það með þeim skýringum sem ég hef hér greint frá, við getum sagt án árangurs í þeim skilningi að þær eru ekki nákvæmari en hér hefur verið gerð grein fyrir.

Það er fyrst og fremst mikilvægt fyrir bændur og bændastéttina og forsvarsmenn þeirra að gera sér grein fyrir þessu. Og ég minni á að vegna þess að ákveðið er að gefa þetta verð frjálst þá verður ekki lengur neitt nefndarstarf til þess að gefa það út annað heldur en að það er kveðið á um það í lögunum að reikna skuli út viðmiðunarverð þannig að það er þá nauðsynlegt fyrir þá sem að því koma að gera sér grein fyrir því hvaða kostnað þar er verið að tilgreina.

Ég get tekið undir það með öðrum hv. þm. sem hér hafa talað að mikilvægt er að ná öllum þessum milliliðakostnaði niður, hvort sem það er sláturkostnaður eða annar kostnaður, heildsölukostnaður og auðvitað kostnaður smásölunnar líka. Ég held að það megi kannski ekki gleyma henni alveg, þ.e. að ná kostnaði þar einnig niður þannig að bóndinn beri meira úr býtum fyrir þær afurðir sem hann er að framleiða.

Vegna orða hv. 8. þm. Reykn. þá vil ég segja --- ef hún vildi gefa mér eins og hálfa sekúndu til þess að hlýða á svarið --- um það að hv. þm. sagði að ekkert hefði breyst í þessum kostnaði þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir, að slátur- og heildsölukostnaður var árið 1991 148,59 kr. eða nærri 150 kr. en er þó ekki nema 136 kr. núna þannig að aðeins hefur áunnist. Það mætti vera meira en ég á von á því að þær breytingar sem fram undan eru muni hafa áhrif á það enn frekar.

Varðandi umsýslu- og eftirlitskostnað sem hv. 1. þm. Vestf. nefndi (Forseti hringir.) þá vil ég ítreka aftur að dýralæknakostnaður og heilbrigðiseftirlit við slátrun er þó ekki nema 2,25 kr. Auðvitað er það kostnaður líka. Ég veit ekki alveg hvað hv. þm. hefur haft í huga sérstaklega (Forseti hringir.) en við gerum miklar kröfur til okkar afurðastöðva og okkar framleiðenda um að vel sé þar búið að öllu og fyllsta hreinlætis gætt við bestu aðstæður þannig að auðvitað kostar líka að fylgjast með því.