Ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:18:37 (4342)

1997-03-12 14:18:37# 121. lþ. 88.4 fundur 395. mál: #A ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:18]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda þá hefur hann lagt fram aðra mjög ítarlega fyrirspurn um mál sem tengjast lögunum um erfðabreyttar lífverur og unnið er að svari í umhvrn. Ég vona að það dragist ekki lengi að svarið berist sem hv. þm. spurði eftir, vonandi kemur það innan þess tíma sem þingsköp kveða á um.

En varðandi nefndarstarfið þá er þetta nokkur listi upp að lesa um það hverjir skipa þessa nefnd. Í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, skipaði umhvrh. níu manna ráðgjafanefnd sem hefur sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Nefndina skipa Franklín Georgsson, forstöðumaður hjá Hollustuvernd ríkisins, sem er formaður og skipaður án tilnefningar, og Aðalheiður Jóhannesdóttir, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, er varaformaður. Kesara Jónsson, sérfræðingur í erfðafræði plantna, er skipuð án tilnefningar og til vara Guðni Á. Alfreðsson prófessor. Árni Bragason forstöðumaður er tilnefndur af Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins og varamaður hans er Aðalsteinn Sigurgeirsson sérfræðingur. Mikael M. Karlsson prófessor er tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og til vara Þorvarður Árnason sérfræðingur. Þorkell Jóhannesson prófessor er tilnefndur af rannsóknastofu í lyfjafræði og til vara Kristín Ólafsdóttir deildarstjóri. Guðmundur Eggertsson prófessor er tilnefndur af Líffræðistofnun Háskóla Íslands og til vara Sigríður Þorbjarnardóttir deildarstjóri. Guðmundur Óli Hreggviðsson sameindalíffræðingur er tilnefndur af Iðntæknistofnun og varamaður hans er Jakob K. Kristjánsson lífefnafræðingur. Sólveig Grétarsdóttir sameindaerfðafræðingur er tilnefnd af Krabbameinsfélagi Íslands og til vara Jórunn Erla Eyfjörð sameindaerfðafræðingur. Guðmundur A. Guðmundsson dýravistfræðingur er tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands og til vara Eyþór Einarsson grasafræðingur.

Þetta eru þeir sem skipaðir hafa verið í þessa nefnd, en rétt er að taka fram að sú skipun er reyndar nýleg því það tók nokkurn tíma bæði að fá tilnefningar og finna sérfræðinga til að taka sæti í þessari mikilvægu nefnd sérfræðinga til að fjalla um þetta mál.

Síðan er spurt um hverjar séu starfsreglur nefndarinnar samkvæmt reglugerð, sbr. 6. gr. laga um erfðabreyttar lífverur, en lög nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, tóku gildi 2. apríl 1996.

Markmið laganna er að vernda náttúru landsins, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra gegn skaðlegum og óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera. Jafnframt er markmið laganna að tryggja að framleiðsla og notkun erfðabreyttra lífvera fari fram á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt í samræmi við grundvallarregluna um sjálfbæra þróun.

Lögin taka til allrar notkunar og starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Jafnframt taka lögin til innflutnings, markaðssetningar, sölu og annarrar afhendingar erfðabreyttra lífvera, svo og til vöru sem inniheldur þær að einhverju leyti. Enn fremur taka lögin til flutnings á erfðabreyttum lífverum og vöru sem inniheldur þær.

Við framkvæmd laganna skal höfð í huga sérstaða landsins á norðurslóð.

Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd laganna, veitir leyfi og stjórnar eftirliti með starfsemi samkvæmt þeim.

Nefndin, þessi sem ég las skipunina í hér áðan, skal veita umsagnir samkvæmt lögum þessum auk þess sem hún skal veita eftirlits- og framkvæmdaraðilum ráðgjöf um framkvæmd laganna og beita sér fyrir fræðslu um erfðabreytingar. Þá ber nefndinni að gera tillögur til ráðherra um allt það sem horfir til betri vegar í málaflokki þessum.

Umhverfisráðherra setur nefndinni starfsreglur í reglugerð auk þess sem þar skal kveðið á um það hvenær skylt sé að leita umsagnar nefndarinnar áður en endanleg ákvörðun er tekin eða leyfi veitt.

Því les ég upp eða vitna í lögin um hlutverk þeirra og hlutverk nefndarinnar að reglugerðin hefur ekki enn verið sett, en umrædd tilvitnun í lögin gefur vísbendingu um það sem í reglugerðinni verður en nú er unnið að þeirri reglugerðarsetningu. Hún er sem sagt í undirbúningi í ráðuneytinu.

Rétt í lokin, hæstv. forseti, er rétt að láta það koma fram af minni hálfu að í þeim umræðum sem orðið hafa í þjóðfélaginu að undanförnu um mál af þessu tagi er ekki óeðlilegt að ýtt sé við því að menn uppfylli lagaákvæðin og fylgist ítarlega með málum þessum á allan hátt og ég mun því reyna að leggja áherslu á að þessari reglugerðarsetningu verði hraðað svo nefndin geti hafið störf sín sem allra fyrst samkvæmt þessum lagatexta sem ég hef hér vitnað til.