Friðun gamalla húsa

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:50:05 (4351)

1997-03-12 14:50:05# 121. lþ. 88.6 fundur 319. mál: #A friðun gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig alveg sáttur við þetta svar frá hæstv. menntmrh. Aðalatriðið fyrir mér í málinu var að það kæmi skýrt fram að þrátt fyrir þennan úrskurð umhvrh. þá hygðist menntmrh. lesa lögin með sama hætti og verið hefur, að ráðuneytið hefði með þessi mál að gera og þessi niðurstaða raskaði í engu framkvæmd þjóðminjalaga. Hins vegar held ég að það sé nauðsynlegt að rifja það upp að þetta mál er því miður dálítið flókið vegna þess að þarna geta komið að pólitískir erfiðir hagsmunir, þ.e. þegar um það er að ræða að einhverjir aðilar vilja t.d. byggja hús á lóð eða lóðum þar sem gömul hús eru fyrir sem viðkomandi telja að þurfi að rífa og losna við til þess að hægt sé að fara út í framkvæmdir sem veiti mönnum kannski meiri fjárhagslegan ábata en að láta hin gömlu hús standa áfram. Það eru þessi átök milli almennra menningarlegra hagsmuna, liggur mér við að segja, og hins vegar skammtímahagsmuna þeirra sem gætu haft hagsmuni af því að rífa húsin og byggja ný sem sveitarstjórnaryfirvöld lenda oft í og eru flókin í þessu máli. Ég held að það verði að tala um þau eins og þau eru og á því máli verði að taka.

Ég bendi á í þessu sambandi, hæstv. forseti, að fyrir þinginu liggur núna í fjórða eða fimmta sinn frv. til skipulagslaga og ég teldi eðlilegt að því frv. yrði breytt að einhverju leyti þannig að hinar menningarlegu forsendur yrðu tryggðar betur heldur en núna er kostur á með almennum deiliskipulagskröfum til þeirra svæða þar sem ætla má að þurfi að vernda hús. Ég bendi í þessu sambandi á fyrirmyndir og góða reynslu af lagaákvæðum af þessu tagi sem hafa lengi verið í gildi í Noregi og hafa nýst vel, eins og þeir þekkja sem hafa komið í gamla norska bæi.