Samræmd próf

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:06:44 (4358)

1997-03-12 15:06:44# 121. lþ. 88.7 fundur 380. mál: #A samræmd próf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[15:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar ágætu umræður og þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina til þess að unnt væri að koma þessum skýringum á framfæri með þeim hætti sem umræðurnar hafa leitt í ljós. Ég vil hins vegar taka fram að að sjálfsögðu hefur það verið lengi til umræðu hvort birta eigi þær upplýsingar sem nú liggja fyrir opinberlega um samanburð á milli skóla á grundvelli samræmdra prófa. Ég tók þá ákvörðun að það skyldi gert og í reglugerðinni sem ég nefndi er mælt fyrir um hvernig Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skuli standa að þessu. Reglugerðin var gefin út 20. september 1996 en eftir að upplýsingalögin tóku gildi 1. janúar sl., sem samþykkt voru af hv. þingmönnum, lá alveg ljóst fyrir að hvort sem þessi reglugerð hefði verið gefin út eða ekki var okkur skylt að gefa þessar upplýsingar og leggja þær fram. Raunar var það eitt af fyrstu málunum sem kom fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál á grundvelli hinna nýju laga hvort ekki bæri að gefa þessar upplýsingar.

Ég tel hins vegar að mjög vel hafi verið staðið að miðlun upplýsinganna. Þær voru kynntar með þeim fyrirvörum sem nauðsynlegar eru þegar menn fjalla um þessi mál og ég verð að segja það sjálfur eftir að hafa fylgst með umræðum um málið eftir að upplýsingarnar lágu fyrir að málið hefur farið í mun jákvæðari og uppbyggilegri farveg en ég gat vænst af þeim mörgu varnaðarorðum sem ég hafði heyrt frá þeim sem voru algerlega andvígir því að þessar upplýsingar yrðu birtar. Ég met það svo af lestri fjölmiðla og viðtölum og þátttöku í fundum um menntamál að menn líta á þetta sem skref í þá átt að styrkja innviði skólakerfisins og hef séð að skólastjórar líta einnig á þetta til marks um að þeir þurfa að taka sig á ef um það er að ræða eða að þeirra starfsemi sé í góðu horfi ef samanburðurinn gefur það til kynna. Ég held að almennt séð, þó um einstök atriði megi að sjálfsögðu deila, þá hafi það verið skynsamleg og rétt ákvörðun að birta þessar upplýsingar.