Svör við fyrirspurn

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:32:38 (4360)

1997-03-12 15:32:38# 121. lþ. 89.91 fundur 241#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:32]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég geri athugasemd um störf þingsins vegna svars frá hæstv. samgrh. við fyrirspurn minni um laun og starfskjör starfsmanna Pósts og síma, þ.e. Póst- og símamálastofnunar annars vegar og Pósts og síma hf. hins vegar.

Það verður að segjast að svar það sem hér hefur verið dreift er mjög athyglisvert. Ekki vantar upp á að hægt sé að svara hér öllum þeim upplýsingum sem óskað er eftir um Póst- og símamálastofnun, en eftir að Póstur og sími varð að Pósti og síma hf. er ekki um nein svör að ræða og segir hér í svarinu, með leyfi forseta: ,,Ráðuneytið hefur því ekki þær upplýsingar sem um er beðið í fyrirspurninni að því er varðar Póst og síma hf. og telur sér ekki fært að krefjast þeirra.``

Nú er Póstur og sími hf. hlutafélag í eigu ríkisins með eitt hlutabréf sem hæstv. samgrh. fer með og fer hann með eignarhlut ríkisins í því. Mér finnst mjög sérkennilegt að hæstv. samgrh. geti ekki kallað eftir þessum upplýsingum hjá trúnaðarmönnum sínum sem hann hefur skipað í stjórn fyrirtækisins. Og ég leyfi mér, herra forseti, að spyrjast fyrir um hvort það geti verið að ekki sé lengur hægt að kalla eftir upplýsingum um ríkisfyrirtæki þegar búið er að gera þau að hlutafélögum? Verða engar upplýsingar gefnar framar um þau ríkisfyrirtæki sem búið er að gera að hlutafélögum, þegar búið er að breyta um rekstrarform?

Ég kalla hér aftur eftir þessum upplýsingum. Ég trúi því ekki að það sé ekki unnt að veita þær og ég óska eftir því hér með að hæstv. forseti beiti sér í málinu.