Svör við fyrirspurn

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:34:27 (4361)

1997-03-12 15:34:27# 121. lþ. 89.91 fundur 241#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:34]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og fram kom í umræðum á hinu háa Alþingi þegar rætt var um nauðsyn þess að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag var það skýrt tekið fram af minni hálfu og undir það tóku ýmsir þingmenn að eitt af því sem gerði það nauðsynlegt að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag væri að til þess að Póstur og sími gæti haldið áfram með eðlilegu samstarfi og samvinnu við erlend fyrirtæki á sviði fjarskipta væri nauðsynlegt að klippa á þau tengsl sem væru á milli ríkisvaldsins og símans, sem m.a. birtast í því að hægt er að ganga inn í opinberar stofnanir og krefjast upplýsinga um hvaðeina.

Ég hygg að í fyrirspurn hv. þingmanns komi líka fram hér að verið er að spyrja um persónulegar upplýsingar um launakjör einstakra manna. Það hefur verið regla að slíkar upplýsingar séu ekki gefnar, enda veit ég satt að segja ekki hvar það mundi enda ef einhverjum alþm. dytti í hug að óska eftir að fá t.d. nákvæmlega upp gefin launakjör tiltekinna starfsstétta hjá ríkinu.

Á hinn bóginn hlýtur þessi fyrirspurn hv. þingmanns og sú tortryggni sem verið er að reyna að vekja í garð Pósts og síma hf. með fyrirspurninni að vekja spurningar um hvort gerlegt sé í nútímalegri samkeppni, sem nær yfir allan heiminn eins og fjarskiptin gera í dag, að reka fyrirtækið með þeim hætti að ríkið eitt eigi hlutabréf í því. Þessi fyrirspurn og sá málarekstur sem henni fylgir kallar auðvitað á þá spurningu og flýtir fyrir því að henni sé svarað að athuga hvort skynsamlegt sé að selja hlutabréf í Pósti og síma hf. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að talsmaður Þjóðvaka í efnahagsmálum, hv. þm. Ágúst Einarsson, hefur verið sérstakur áhugamaður um hlutabréfaviðskipti og annað því líkt.