Svör við fyrirspurn

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:36:59 (4362)

1997-03-12 15:36:59# 121. lþ. 89.91 fundur 241#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:36]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta svar sem hér hefur verið dreift á hinu háa Alþingi er fráleitt vegna þess að ráðherra fer með eignaraðild ríkisins í Pósti og síma hf. samkvæmt lögum um Póst og síma og samkvæmt lögum um hlutafélög. Stjórn situr í umboði hluthafa og ríkissjóður á þennan hlut sem ráðherra fer með fyrir hönd ríkisins. Ráðherra fer ekki persónulega með þennan hlut.

Alþingi óskar eftir því að ráðherra upplýsi um þætti sem hluthöfum eru aðgengilegir, ekki hvað síst 100% hluthafa eins og er í þessu tilviki. Réttur hluthafa til að krefjast upplýsinga er skýrt markaður í hlutafjárlögum, bæði 85., 86. og 91. gr., hvað varðar fundi og upplýsingaskyldu, þannig að það er á færi ráðherra að óska eftir þessum upplýsingum. Ég minni á að stjórnin situr í umboði ráðherra. Ég var sjálfur fylgjandi því að Pósti og síma var breytt í hlutafélag, reyndar ekki í þessari útfærslu nákvæmlega, en þetta svar kallar á tortryggni varðandi alla málsmeðferð vegna þess að það er ekki lagastoð fyrir þessu svari ráðherra. Ég hef átt þess kost að ræða aðeins við lögfræðinga um þetta mál og þeim ber saman um að hér sé ráðherra á hálum ís.

Ráðherra veitir upplýsingar um starfskjör í þessu svari fyrir hlutafjárbreytinguna og oft er upplýst um t.d. launakjör bankastjóra. Ekkert í formbreytingunni segir að ekki verði á sama máta veittar upplýsingar um það sem um er beðið hér á hinu háa Alþingi vegna þess að eignarhlutur ríkisins er ótvíræður og ráðherrann fer með þetta eignarhald fyrir hönd ríkisins.

Hluthafi á aðalfundi Eimskipafélags Íslands getur staðið þar upp og spurt stjórn og fundarstjóra um launakjör Harðar Sigurgestssonar, forstjóra félagsins, og hann fær upplýsingar um það á þeim hluthafafundi. Það gilda lög og reglur um skyldur og réttindi hluthafa í landinu og ég óska eftir því að forseti hlutist til um að svör fáist. Ég mun á næsta fundi í efh.- og viðskn. sem málið er nokkuð skylt óska eftir að þetta mál verði skoðað, farið verði ofan í það og kallað eftir upplýsingum.