Svör við fyrirspurn

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:39:23 (4363)

1997-03-12 15:39:23# 121. lþ. 89.91 fundur 241#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:39]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það fer að verða fremur regla en undantekning að hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar skili þingheimi hálfkveðnum vísum við eðlilegum fyrirspurnum hv. þingmanna. Það svar sem hér um ræðir, ef svar má kalla, er auðvitað hrein og klár hneisa og viðbrögð hæstv. ráðherra við réttmætum athugasemdum fyrirspyrjanda eru hneyksli. Að segja hér við hv. þingmann að ef menn hætti ekki að spyrja spurninga á borð við þær sem hér eru fram lagðar, þá sé hugsanlega best að selja þetta fyrirtæki. Þá sé bara best að ráðherra skipti um skoðun frá því í desember sl. og best að fara að koma fyrirtækinu út á markað þannig að hæstv. ráðherra þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hv. þingmenn sinni lögboðinni eftirlitsskyldu sinni gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þetta er auðvitað slík forsmán að engu tali tekur. Það er rétt að hæstv. ráðherra tali hér hreint út og segi hlutina eins og þeir eru. Er það með öðrum orðum á dagskrá hjá honum alveg á næstunni að koma þessu út á markað, þvert á það sem hann lofaði margsinnis í umræðunni um hlutafélagsvæðinguna?

Annað er auðvitað mikilvægt í þessu sambandi. Er þetta það sem koma skal? Við erum að ræða stórt mál í þinginu þessa dagana sem lýtur að hlutafélagsvæðingu bankanna. Menn hafa ekki farið í felur með kjaramál til að mynda bankastjóra eða önnur atriði sem lúta að rekstri þeirra. Þýðir þetta, og rétt er að fá skýr svör við því, að eftir að bankarnir verða hlutafélagsvæddir sé hv. þingmönnum bannað að spyrja um eitt eða annað í rekstri þeirra? Er eingöngu um að ræða laun embættismanna eða tekur þetta yfir alla rekstrarþætti Pósts og síma? Kemur hv. þingmönnum ekki lengur við hvað þar fer fram innan dyra? Ég bið um skýr svör við því og menn hljóta auðvitað að draga sínar ályktanir af þeim svörum sem við því fást. En þetta er auðvitað hrein og klár hneisa og hlýtur að koma til umræðu og athugunar hjá yfirstjórn þingsins hvernig menn ætla að haga samskiptum framkvæmdarvalds og þings.