Svör við fyrirspurn

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:41:50 (4364)

1997-03-12 15:41:50# 121. lþ. 89.91 fundur 241#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta eru ný tíðindi í einkavæðingarhraðferð ríkisstjórnarinnar að hún þýði að leynd eigi að hvíla yfir launakjörum toppanna hjá þeim fyrirtækjum sem eru einkavædd. Það er auðvitað fráleitt að leynd verði látin hvíla yfir launakjörum Pósts og síma eftir að félaginu hefur verið breytt í hlutafélag, ekki síst þar sem fyrirtækið er í fullri ríkiseign. Og reynslan er sú eins og sagt var við umræðuna á sínum tíma að í löndum þar sem póstur og sími hefur verið einkavæddur hafa laun toppanna hækkað. Hefur sú orðið reyndin varðandi Póst og síma og ætlar ráðherrann virkilega að leyna Alþingi því hver kjörin eru?

Ég spyr líka um bankana. Þetta hefur áhrif á umræðuna um þá. Hæstv. viðskrh. sagði að þegar bönkunum hefði verið breytt í hlutafélög, þá yrðu launakjör bankastjóranna endurskoðuð. Þýðir það virkilega að Alþingi muni eftir það ekki fá upplýsingar um hver kjör bankastjóranna eru? Við hvaða lög og reglur styðst ráðherrann? Ef þetta er reglan þá hlýtur hún líka að gilda varðandi bankana og það er auðvitað fráleitt og óþolandi fyrir Alþingi að ætla að búa við það að fá ekki slíkar upplýsingar. Það er ekki verið að biðja um upplýsingar um einstaka aðila og nöfn. Það var hægt að gefa þessar upplýsingar varðandi bankastjórana og hæstv. viðskrh. gerði það með fullri sæmd og sagði að nauðsynlegt væri að endurskoða þau launakjör en það væri ekki hægt fyrr en búið væri að breyta bönkunum í hlutafélög.

Hæstv. forseti. Þetta svar krefst virkilegrar skýringar og ég spyr ráðherrann: Með stoð í hvaða lögum og reglum ætlar hann að láta leynd hvíla yfir launakjörum toppanna hjá Pósti og síma?