Svör við fyrirspurn

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:43:47 (4365)

1997-03-12 15:43:47# 121. lþ. 89.91 fundur 241#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:43]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þær spurningar sem hér hafa verið bornar fram. Ég á eiginlega ekki orð yfir því svari sem hér hefur verið borið á borð fyrir þingheim. Hér er því haldið fram að við breytingarnar á Pósti og síma hafi rofnað öll stjórnsýslutengsl milli ráðuneytis og félagsins. Fer ekki ráðherra með eignarhlut ríkisins í þessu félagi? Ég veit ekki betur.

Hvað er ráðherrann að segja hérna? Að Alþingi geti ekki lengur sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart þeim eignum ríkisins, hvort sem það eru stofnanir eða hvers konar form þar er, að um leið og þeim hafi verið breytt í hlutafélag, þá geti Alþingi ekki lengur sinnt sínu eftirlitshlutverki? Þetta er auðvitað algjörlega fráleitt og við hljótum að skoða þetta mál nánar, hæstv. forseti. Ég spyr líka um hlutverk Ríkisendurskoðunar. Kemur Ríkisendurskoðun ekkert framar að þessum málum og þessum hlutafélögum? Ég tek einnig undir að þetta varpar algjörlega nýju ljósi á þau frumvörp sem hér eru til umræðu um hlutafélagsvæðingu bankanna.