Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:51:45 (4369)

1997-03-12 15:51:45# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ekki hægt að leggjast gegn því að stjórnvöld freisti skynsamlegs sparnaðar. En alveg án tillits til þess hvort menn eru með eða á móti ákvörðunum hæstv. heilbrrh. um 60 millj. kr. niðurskurð á þessu ári á 12 sjúkrahúsum landsbyggðarinnar, þá er ekki hægt að láta vinnubrögð hennar í málinu átölulaus.

Virtur læknir sagði í grein í Morgunblaðinu í síðasta mánuði: ,,Þetta er ekki sparnaður, þetta eru fantabrögð.`` Hann kallar aðferðir hæstv. ráðherra tilraunaverkefni stjórnlauss heilbrrn. Það er því nauðsynlegt að þingið fari aðeins yfir hver þessi vinnubrögð eru.

Byrjum á fjárlagafrv. Í greinargerð með því var staðhæft að niðurskurðurinn væri fenginn á grundvelli annars vegar úttekta á nokkrum sjúkrahúsum á landsbyggðinni og hins vegar áætlun um hagkvæmustu nýtingu miðað við þarfir á sérhverjum stað. Hæstv. heilbrrh. var þráspurð um þessar úttektir hér á Alþingi. Fulltrúar ráðuneytisins voru þráspurðir af forsvarsmönnum sjúkrahúsanna. Málið var reifað í heilbrn. þingsins en það komu aldrei neinar skýslur. Þær voru nefnilega aldrei til. Það var efnislega staðfest af talsmanni ráðuneytisins í Ríkisútvarpinu 1. febr. sl.

Staðreyndin er sú að niðurskurðurinn var ákveðinn af handahófi fyrir fram og síðan hefur ráðuneytið og hæstv. heilbrrh. verið í óðaönn að búa til rökstuðning eftir á. Þetta, herra forseti, eru óþolandi vinnubrögð bæði fyrir þingið og fyrir þjóðina.

En það er fleira. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gaf formaður fjárln. yfirlýsingu við 3. umr. fjárlaga um að engar endanlegar tillögur kæmu fram fyrr en eftir samráð við viðkomandi sveitarstjórnir. Þetta eru forsendurnar fyrir samþykkt þingsins á þeim niðurskurði sem þá var ákveðinn. Þetta loforð, herra forseti, hefur verið þverbrotið eins og fræðilega er unnt. Það hefur alls ekkert samráð verið haft við sveitarstjórnarirnar.

Hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., lofaði því líka fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að haft yrði samráð við forsvarsmenn sjúkrahúsanna. Það var líka þverbrotið. Sjúkrahúsin fengu niðurskurðinn í formi fyrirmæla, þau máttu sjálf gera tillögur um annars konar niðurskurð en ekki um minni niðurskurð. Þau fengu, svo að ég noti orð hv. þm. Hjálmars Jónssonar, niðurskurðartölurnar afturgengnar í tilskipunarformi. Samráðið, herra forseti, var sem sagt ekkert. Var ekki einu sinni sagt: Orð skulu standa? Og hvernig líður þeim formanni fjárln. sem af sínum eigin ráðherra er gerður að ómerkingi eins og orð hans séu einskis virði?

Hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur líka sagt að verkefnisstjórn ráðuneytisins hafi brotið samþykktir Alþingis. Það eru stór orð af munni stjórnarliða. En a.m.k. formaður heilbr.- og trn. er því sammála. En hver ber ábyrgð á verkefnisstjórninni? Það er að sjálfsögðu hæstv. heilbrrh. Hér, herra forseti, tel ég að sé ekki um neitt annað að ræða en hreint og klárt og ómengað vantraust á hæstv. ráðherrann sem kemur þráðbeint úr miðju stjórnarliðsins, ekki frá stjórnarandstöðunni.

Í kjölfarið, herra forseti, sendi hæstv. félmrh. með öðrum þingmönnum opinbera áskorun til hæstv. heilbrrh. um að hún viðhefði vönduð vinnubrögð í málinu. Einn ráðherra skorar sem sagt á annan að vanda vinnubrögð sín. Frammi fyrir hverju stöndum við? Þetta er yfirlýsing eins ráðherra um að annar ráðherra hafi ekki vald á því verki sem honum er falið. Og til að kóróna þennan farsa sagði embættismaðurinn sem hefur yfirumsjón með niðurskurðinum á opnum fundi fyrir tæpum tveimur vikum, þar sem ég var staddur ásamt hæstv. ráðherra: ,,Ég græt það ekkert þó að við náum ekki þessum peningum.``

Herra forseti. Var þetta þá allt saman grín? Var þetta bara í plati? Er það bara ,,djók`` að skapa ólgu og óróleika á landsbyggðinni með svona tali? Í hnotskurn sýnist mér málið vera svona, herra forseti:

1. Stjórnarliðið gagnrýnir vinnubrögð ráðherrans.

2. Fulltrúi ríkisstjórnar í fjárln. segir að ráðuneytið brjóti samþykktir þingsins.

3. Annar ráðherra dregur vinnubrögð hennar í efa.

4. Hennar eigin embættismaður segir að hann gráti ekki þó að ráðherranum mistakist ætlunarverkið.

Ég spyr þess vegna: Er ekki mál til komið að þessum farsa linni? Er ekki kominn tími til að slá á kvíða fólks og fá botn í málið? Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Er hún ekki sammála því sem hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur sagt opinberlega að ekki séu lengur forsendur til að ná þessum sparnaði á þessu ári vegna þess að það þarf meira tilhlaup? Er hún ekki til í að lýsa því yfir og ljúka þessu máli fyrir sitt leyti á þessum þingfundi?