Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:56:54 (4370)

1997-03-12 15:56:54# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:56]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka upp hér á hinu háa Alþingi málefni landsbyggðarsjúkrahúsanna. Það hefur hann ekki gert áður þótt hann hafi haft ótal tækifæri til.

Eins og hv. þingmönnum er í fersku minni voru samþykkt fjárlög hér á Alþingi fyrir jól. Þá var samþykkt viss hagræðing á sjúkrahúsum úti á landi upp á 60 millj. kr. Það var ákveðið um leið að taka þessar 60 millj. úr hagræðingarsjóði heilbrrn. því að við ætlum að hafa fullt samráð og samvinnu við heimamenn um þessa hagræðingu.

Um vinnubrögðin er það að segja að eins og kom fram í fjárlagaumræðunni var sérstök nefnd skipuð í október sl. sem skyldi hafa þetta verkefni með höndum. Nefndin var skipuð tveim fagaðilum, tveim stjórnarþingmönnum sem þekkja vel til byggðamála og skrifstofustjóra úr heilbrrn.

Í ársbyrjun voru sjúkrahússtjórnendum send vinnugögn sem hafa vakið vissa ólgu eins og fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. En hvað var í þessum vinnugögnum? Vinnugögnin byggðu á íbúafjölda í héraði, aldursdreifingu og þjónustustigi og héraðshlutdeild sjúkrahúsanna, þ.e. hversu margir héraðsbúar nýttu sér sjúkrahúsaðstöðuna. Þetta voru vinnugögn sem stjórnendur sjúkrahúsanna fengu og sjúkrahússtjórnendum var gefinn kostur á að koma með athugasemdir við þessi vinnugögn. Flestir sjúkrahússtjórnendur hafa nú sent sínar athugasemdir og einmitt núna er hluti nefndarinnar á ferðalagi og heimsækir þau sjúkrahús sem hér er um rætt og unnið er í samvinnu við heimamenn um þessa hagræðingu. En fjárveitingar til þessara héraðssjúkrahúsa hafa hækkað um 10,8% á sl. sjö árum samanborið við sjúkrahúsin hér á Reykjavíkursvæðinu um 4,8% á sama tíma.

Það er rétt að geta þess að á undangengnum árum hafa heilbrigðisstéttir og stjórnendur sjúkrahúsanna gengið langt varðandi hagræðingu í þjónustunni en það hefur ekki bitnað á þjónustu við sjúklinga. En vegna þessarar hagræðingar hefur okkur tekist að fjölga flóknum aðgerðum, við höfum aldrei gert fleiri aðgerðir en á sl. ári, við höfum tekist á við nýja tækni og tekist á við ný lyf og verið í fararbroddi á ýmsum sviðum. Þetta er allt hægt að gera ef við rekum sjúkrastofnanir á sem hagkvæmastan hátt. Við erum ekki að tala um neina byltingu í þessum efnum.

Fyrir fjórum árum var kynnt hér af alþýðuflokksráðherra svokölluð gul skýrsla sem boðaði byltingu varðandi héraðssjúkrahúsin. Það átti með einu pennastriki að spara 800 millj. Hér erum við að tala um 60 millj. hagræðingu á einu ári. Við erum að spara í yfirstjórn með samvinnu og samræmingu og þannig ætlum við að byggja upp betri þjónustu fyrir sjúklingana. Hér er faglega og lýðræðislega að öllu staðið og öllum aðdróttunum um annað vísa ég heim til föðurhúsanna.