Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:10:06 (4375)

1997-03-12 16:10:06# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:10]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég man ekki dæmi þess að hv. þm. sem hefur verið falinn sá trúnaður af þinginu að vera nefndarformaður í fagnefnd hafi snúið hlutunum á haus eins og hv. formaður heilbr.- og trn. gerði áðan. Mig undrar að það skuli vera beðið um utandagskrárumræðu um þetta mál og að málshefjandi skuli ekki hafa kynnt sér málið áður en hann byrjaði umræðuna. Hann segir að framkvæmd málsins hafi verið í algjöru ósamræmi við það sem ég sagði í fjárlagaræðu minni. Þetta er alrangt. Framkvæmdin hefur algjörlega verið í samræmi við það sem ég sagði þá. Það hefur verið verkefnisstjórn í þessu máli. Þessi verkefnisstjórn hefur lagt tillögur fyrir forsvarsmenn sjúkrahúsanna. Hún hefur beðið um umsagnir þeirra. Hún mun fara og ræða við hverja einustu stjórn, hafa samráð við sveitarstjórnarmenn og fara yfir þetta mál. Mig undrar að farið skuli í utandagskrárumræðu um málið á svona hæpnum forsendum eins og hv. formaður heilbr.- og trn. gerir.

Það hafa engir úrslitakostir verið settir í þessu máli. Samráð um það þarf einkum að beinast að eftirtöldum atriðum:

Hvort hægt er að spara skipulega í yfirstjórn sjúkrahúsanna með samstarfi þeirra, sameiningu stofnana eða aukinni verkaskiptingu. Hvort hægt er að auka héraðshlutdeild þeirra með aukinni sérfræðiþjónustu eða hliðstæðum aðgerðum. Og það þarf að meta kostnaðaraukingu sjúkrahúsanna úti á landi vegna staðsetningar þeirra og þjónustuhlutverks, t.d. vegna einangrunar eða samgangna.

Ég vísa því algjörlega á bug að í þessu máli hafi verið um fantabrögð að ræða. Fjárveitingar til sjúkrahúsanna hafa ekki verið lækkaðar um eina einustu krónu. En það hafa verið sett sparnaðarmarkmið og það hefur verið fært inn á hagræðingarlið ráðuneytisins og er ætlunin, ef sparnaður næst fram, að skila honum inn á þennan hagræðingarlið. Þetta er ekki svo flókið mál að hæstv. formaður heilbr.- og trn. ætti ekki að geta skilið það.

Ég vísa þeim ummælum algjörlega á bug að þessi framkvæmd hafi verið í skötulíki.