Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:18:20 (4379)

1997-03-12 16:18:20# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:18]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Í þessu máli hafa verið viðhöfð alveg ágæt vinnubrögð. Það er nefnd að störfum, verkefnisstjórn, og hún er í samráði við sjúkrahúsin að reyna að finna leiðir til að spara. Það er ekki búið að taka eina einustu ákvörðun. Fulltrúar úr þessari nefnd eru núna á Sauðárkróki að ræða við starfsfólkið þar. Það er því alrangt að búið sé að taka þessar ákvarðanir. Eina ákvörðunin sem hefur verið tekin er að það eigi að spara í heild 60 millj. kr. á þessu ári á sjúkrahúsunum. Það er eina ákvörðunin sem hefur verið tekin. Ég átta mig því ekki alveg á þessari umræðu.

Hins vegar er ekkert skrýtið að það sé órói vegna þessa máls. Það er okkur sjálfum að kenna vegna þess að einstaka þingmenn hafa farið fram og vakið óróa um málið með því að biðja um rekstrarlega úttekt á þessum sjúkrahúsum þó það hafi aldrei verið rætt í upphafi að það ætti að gera og þeir vísa í sjúkrahúsin hér á suðvesturhorninu. Gott og vel. Það má vel vera að það sé rétt að gera rekstrarlega úttekt úti í bæ á þessum sjúkrahúsum. Tvö sjúkrahús hafa gert það, sjúkrahúsin í Neskaupstað og á Patrekstirði, en þau hafa ekki farið eftir henni.