Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:22:02 (4382)

1997-03-12 16:22:02# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg fráleit fullyrðing hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að ég eða aðrir þingmenn Norðurl. v. höfum verið með eitthvert vantraust á hæstv. heilbrrh. Það er ekki nokkur leið að skoða þá samþykkt sem við gerðum ásamt framkvæmdastjórum sjúkrahúsa í kjördæminu sem eitthvað í þá áttina. Þvert á móti vorum við að bjóða upp á samstarf til að ná þeim markmiðum sem heilbrrh. hafði sett fram, sparnaði án þess að skerða þjónustu. Við tilgreindum nokkur atriði sem við töldum að gætu komið til greina og buðum beinlínis fram samstarf okkar við að ná þessum sparnaði án þess að skerða þjónustuna. Það hefur engin ákvörðun verið tekin og þar af leiðandi var engri ákvörðun hægt að mótmæla af því að hún hafði ekki verið tekin. Það var ekkert vantraust hægt að bera fram út af ákvörðun sem ekki hafði verið tekin.

Ég vil líka mótmæla alveg sérstaklega fullyrðingu sem kom hér fram frá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að halda því fram að sjúkrahús og heilsugæslustöðvar væru til vegna þess að þær væru vinnustaðir. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar eru rekin fyrir sjúklingana.