Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:24:40 (4384)

1997-03-12 16:24:40# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:24]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Verkefnisstjórn sú sem hér hefur verið nefnd opinberaði tillögur sínar í janúar sl. og hefur að sumu leyti unnið ágætis starf. En afar óheppilega var staðið að kynningu á hugmyndum nefndarinnar og ekki líklegt að heimamenn hlypu upp til handa og fóta til samstarfs þegar búið var að skipta niður sparnaðinum í krónum og aurum ásamt ófullkomnum, svo ekki sé meira sagt, hugmyndum um hagræðingarmöguleika. Þær gengu aðallega út á samvinnu og sameiningu en stór galli var á tillögunum að ekki var tilgreint hver ætti að kanna samvinnuna og leiða eitthvert viðræðuferli á milli stofnana. Það hlýtur að vekja sérstaka athygli þar sem hagræðingartillögurnar ganga ekki út á annað.

Ég hef miklar athugasemdir við hugtakið, héraðshlutdeild, sem virðist vera undirstaða þess reikniverks sem öll vinnan byggist á. Hugtakið felur m.a. í sér þær forsendur að maður geti einungis leitað sér læknisþjónustu í heimahéraði eða í Reykjavík en það vinnur aftur á móti hugsuninni um sérhæfni einstakra sjúkrahúsa nema þau séu staðsett í Reykjavík.