Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:26:07 (4385)

1997-03-12 16:26:07# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:26]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur skýrt þetta mál mjög mikið. Hér hafa þrír hv. þm. Sjálfstfl. komið upp og gagnrýnt málsmeðferð hæstv. heilbrrh. mjög harkalega. Ég tek undir alla þeirra gagnrýni. Það er líka ljóst að það er rétt sem hv. þm. Hjálmar Jónsson segir að það er uppi mjög alvarlegur misskilningur í málinu og það hefur enginn sýnt betur fram á það en hann. En hver er grundvallarmisskilningurinn í þessu máli? Hann er auðvitað sá að hæstv. heilbrrh. hefur sett fram markmið til að spara 60 millj. kr. en hv. stjórnarliðar eru einfaldlega aljörlega á móti því. Það er það sem stendur upp úr.

Það eru tvær spurningar sem við þurfum að svara. Í fyrsta lagi: Stendur enn þá sparnaðarmarkmið hæstv. heilbrrh. um að skera niður um 60 millj. á þessu ári? Í öðru lagi, stendur enn þá það sem segir í greinargerð með fjárlagafrv. fyrir þetta ár að það sé einungis fyrsti áfanginn að spara 160 millj. kr.? Ég tel, herra forseti, að þessum spurningum hafi þingheimur fyrir sitt leyti svarað í dag. Það er alveg ljóst að þingheimur telur að það sé illframkvæmanlegt og obbinn af stjórnarliðinu sem hér hefur talað er á móti þessum vinnubrögðum.

Herra forseti. Ég efndi til þessarar umræðu til þess að ræða um vinnubrögð. Hvers vegna? Í heilbr.- og trn. kom Kristján Erlendsson, starfsmaður og yfirmaður þess hluta ráðuneytisins sem sér um þennan niðurskurð. Hann sagði það alveg klárt og kvitt eins og hér kom fram hjá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur að vinnubrögðin væru þannig að niðurskurðurinn væri ákveðinn og sendur sjúkrahúsunum, þau gætu gert athugasemdir um það. Ég spurði: Af hverju gerið þið þetta? Svarið var þetta: Það gekk svo vel í Reykjavík að við ætlum að prófa þetta aftur. Ég vísa því öllu á bug um að þetta sé einhver misskilningur af minni hálfu. Hins vegar hef ég fulla samúð með vini mínum, hv. þm. Jóni Kristjánssyni, sem er auðvitað grátt leikinn í þessu máli og miklu miður en hann á skilið.

Herra forseti. Það stendur eftir að hæstv. heilbrrh. hefur ekki þingstyrk til að ná í gegn þessu sem er líka enginn niðurskurður, þetta er bara markmið. Við skulum gleyma þessu markmiði. Við þurfum, eins og hv. þm. séra Hjálmar Jónsson sagði, lengra tilhlaup í þetta stökk.