1997-03-13 10:36:55# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[10:36]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eftir að slitnaði upp úr samningaviðræðum milli eignaraðila að Íslenska járnblendifélaginu 28. febr. sl. fóru aftur af stað viðræður um síðustu helgi sem enduðu með því að seint í gærkvöldi komust eignaraðilar að samkomulagi um stækkun verksmiðjunnar. Samningurinn um stækkun verksmiðjunnar á Grundartanga felur í sér að Elkem skrifar sig fyrir nýju hlutafé til að fjármagna þriðja ofn verksmiðjunnar sem eykur afkastagetu hennar úr 70 þúsund tonnum í 110 þúsund tonn. Jafnframt hefur verið samið um það við Landsvirkjun að Íslenska járnblendifélagið geti nýtt sér forkaupsrétt á raforku til þriðja ofnsins með þeim skilmálum sem kveðið er á um í rafmagnssamningi milli Íslenska járnblendifélagsins og Landsvirkjunar frá 9. janúar sl.

Meginefni samnings eigendanna er að Elkem mun leggja fram það viðbótarhlutafé sem þörf er á vegna stækkunar verksmiðjunnar. Með hlutafjáraukningunni eignast Elkem meiri hluta í fyrirtækinu eða 51%. Elkem átti áður 30% hlut. Hlutur íslenska ríkisins sem var 55% verður nú 38,5%. Sumitomo í Japan sem átti 15% hlut mun eiga eftir þessa breytingu 10,5%. Um leið verður félagið gert að almenningshlutafélagi og að undangengnu almennu hlutafjárútboði skráð á hlutabréfamarkaði hér á landi strax á þessu ári. Hlutabréf íslenska ríkisins verða síðan seld á hlutabréfamarkaði í áföngum.

Í samningnum er hlutafé í Íslenska járnblendifélaginu metið á 245 millj. norskra króna eða rétt rúma 2,5 milljarða íslenskra króna. Matsverð sem fengið er á fyrirtækinu byggir á mati þriggja aðila: Það er í fyrsta lagi matsverð frá fjárfestingarbankanum Salomon Brothers International Limited í London sem mat verðgildi hlutafjár í Íslenska járnblendifélaginu fyrir ríkið sl. haust á bilinu 225--250 millj. norskra króna. Einnig byggir þetta mat á mati tveggja íslenskra verðbréfafyrirtækja, Kaupþings og Íslandsbanka. Matsverð þessara fyrirtækja er svipað og matsverð enska fyrirtækisins eða á bilinu 230--290 millj. norskra króna.

Í samningnum er einnig kveðið á um arðgreiðslur ársins 1996. Jafnframt eru gerðar breytingar á markaðssamningi félagsins við Sumitomo. Kveðið er á um meginreglur um að allar greiðslur skuli fara fram á grundvelli hlutlægna reglna um viðskipti milli óskyldra aðila og eftirlit óháðra endurskoðenda um framkvæmd reglnanna. Þá er ákvæði um að rannsóknar- og þróunarstarf skuli eflt og fyrirtækið treyst í sessi sem leiðandi afl á því sviði á Íslandi.

Á fundi sem við áttum með starfsfólki járnblendifélagsins í morgun uppi á Grundartanga kom fram í máli fulltrúa Elkem að það verður áframhaldandi stefna félagsins að hafa að störfum við fyrirtækið íslenskan framkvæmdastjóra.

Innborgað nýtt hlutafé Elkem verður 932,5 millj. íslenskra króna. Fjárfesting vegna þriðja ofnsins er um 2,7 milljarðar og verður það sem á vantar, um 1.800 millj. kr., fjármagnað með lánsfé. Þetta tryggir mjög hátt eiginfjárhlutfall Íslenska járnblendifélagsins. Á aðalfundi félagsins sem haldinn verður í næsta mánuði verður formlega gengið frá hlutafjáraukningunni og breytingum á samþykktum félagsins. Á aðalfundinum fer fram stjórnarkjör og fær Elkem fjóra fulltrúa í stjórn fyrirtækisins, íslenska ríkið tvo og Sumitomo einn.

Það liggur líka fyrir að við þessa stækkun mun fyrirtækið þurfa á nýju starfsleyfi að halda til þess að reka þriðja ofninn. Í því starfsleyfi munu verða gerðar ýtrustu kröfur um mengunarvarnir í alla staði og þær uppfylltar hversu strangar sem þær geta orðið.

Með þessum samningi hefur tekist að tryggja stöðu Íslenska járnblendifélagsins til frambúðarreksturs. Í öðru lagi að treysta samkeppnisstöðu félagsins og atvinnuöryggi starfsfólksins. Í þriðja lagi að fá erlent áhættufé inn í atvinnurekstur á Íslandi og í fjórða lagi að skjóta styrkari stoðum undir rannsóknir og þróun í iðnaði á Íslandi.