1997-03-13 10:42:15# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[10:42]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Þessum samningi fylgja vissulega stórir kostir en einnig nokkrir gallar. Í stuttu máli verður að drepa aðeins á þeim allra stærstu.

Kostirnir eru að sjálfsögðu þeir að stækkun verksmiðjunnar er tryggð. Í öðru lagi að störfum mun fjölga í stað þess að þeim mundi ella hafa þurft að fækka ef ekki hefði af þessu orðið. Í þriðja lagi er markaður tryggður fyrir afurðir verksmiðjunnar sem ekki hefði verið unnt að gera ef Íslendingar einir hefðu ætlað að standa að stækkuninni og í fjórða lagi er þetta tvímælalaust réttur tími vegna þess að afkoma verksmiðjunnar er nú góð, en líkur benda til þess með afnámi verndartolla í áföngum að afkoma verksmiðjunnar verði ekki eins góð á næsta og þar næsta ári eins og hún hefur verið. Allt eru þetta tvímælalaust stórir kostir og ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa náð þessari niðurstöðu.

En það eru einnig ókostir sem þarna eru augljósir. Deila má um það verð sem upp er sett þó að það sé innan þeirra marka sem aðilar sem komið hafa að því að meta eignir í verksmiðjunni hafa gert ráð fyrir. Stærsti gallinn er hins vegar sá hvaða erlendur aðili það er sem nær nú meirihlutatökum í verksmiðjunni. Reynsla okkar Íslendinga af Elkem er sú að þar sé um mjög harðdræga aðila að ræða. Því er ekki heldur að leyna að stjórn Elkem á í deilum við starfsfólk í öllum þeim verksmiðjum sem reknar eru á hennar vegum.

Í þriðja lagi er það áhyggjuefni að Elkemstjórnin hefur tekið upp á þeim sið að krefja allar þær verksmiðjur sem á hennar vegum starfa um stjórnunargjöld. Það er hennar aðferð til þess að flytja fjármuni úr rekstri verksmiðjanna til aðalstöðvanna í Ósló og við þekkjum það frá þeim tíma þegar Elkem tók þróunargjöld af Íslenska járnblendifélaginu hversu harðsótt það getur verið af þeirra hálfu að draga til sín fé með þessum hætti.

Að lokum var ástæða til að óttast að þeir mundu einnig flytja þróunarstarfið úr verksmiðjunni og á sinn vettvang en eins og hæstv. iðnrh. hefur nú skýrt frá hafa þeir lýst því yfir að það muni ekki verða gert, heldur muni þeir beita sér fyrir því að það farsæla þróunarstarf sem unnið hefur verið í þessari verksmiðju muni halda áfram. Það er því vissulega einnig hægt að finna ókosti á þessu samkomulagi en engu að síður er það mín niðurstaða að þegar vegnir séu bæði kostirnir og ókostirnir þá séu kostirnir miklu þyngri á metaskálunum.

En mig langar, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. iðnrh. að öðru sem lýtur að þessu máli og það er að þegar svo virtist vera að samningar gætu ekki tekist þá bauð forstjóri Landsvirkjunar fyrirtækinu Columbia Ventures að ganga inn í samkomulag um raforkukaup sem forstöðumenn Íslenska járnblendifélagsins höfðu verið að velta fyrir sér. Ég veit ekki betur en að það tilboð standi enn. Landsvirkjun mun geta sinnt báðum þessum tilboðum ef Columbia Ventures tekur því tilboði sem Landsvirkjun beindi til þeirra en þá ekki nema með umtalsverðum viðbótarframkvæmdum við virkjun við Sultartanga sem mun kosta verulega fjármuni og leiða til mun meira framkvæmdastigs á næsta ári og næstu árum heldur en gert var ráð fyrir. Og mín spurning til hæstv. iðnrh. er þessi: Er þá líklegt að ríkisstjórnin muni bregðast við þeim auknu framkvæmdum (Forseti hringir.) með því að skera niður opinberar framkvæmdir eins og hún hefur boðað að gera þyrfti vegna þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar voru áður en að því kom að umrædd raforkusala frá Landsvirkjun gæti orðið miklu meiri heldur en þá var talað um?