1997-03-13 10:59:16# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), StG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[10:59]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að samningar hafa tekist um stækkun járnblendiverksmiðjunnar og þakka hæstv. iðnrh. hvernig hann hefur haldið á þessu máli af fullri festu gagnvart erlendum viðsemjendum. Í þeim samningum sem hér hafa verið gerðir sýnist mér að hagsmunir Íslendinga séu mjög ásættanlegir. Þeir bæta afkomu fyrirtækisins og treysta verulega atvinnuöryggi starfsfólks til lengri tíma litið.

Mér er það fremur fagnaðarefni að íslenska ríkið eigi enn um sinn jafnstóran hlut í fyrirtækinu og hér er lagt til. Ég trúi því að sú stækkun verksmiðjunnar sem nú er ákveðin og áform um frekari framþróun fyrirtækisins muni bæta mjög afkomu fyrirtækisins og þannig hækka verðgildi þess rúmlega 38% eignarhluta í járnblendiverksmiðjunni sem íslenska ríkið á. Ráðherrann hefur teflt þessa skák býsna vel, hæstv. forseti.

Að þessar framkvæmdir muni valda mikilli þenslu á suðvesturhorninu eins og oft er sagt eru ekki gild rök til að leggjast gegn þessum áformum. Þau eru alveg klár skilaboð til aukinnar atvinnustarfsemi sem víðast á landsbyggðinni. Þau undirstrika að á Íslandi er nú betra starfsumhverfi en verið hefur um langt skeið. Það umhverfi þarf umfram allt að verja og vera okkur hvatning sem allra víðast til aukinnar sóknar til atvinnuuppbyggingar.