1997-03-13 11:03:26# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[11:03]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það mætti halda að mikil hátíðarstund væri runnin upp hér á Alþingi. Hæstv. iðnrh. hefur unnið það afrek að afhenda erlendu fyrirtæki, einu fyrirtæki, Elkem, meiri hlutann í Íslenska járnblendifélaginu. Síðan kemur hæstv. iðnrh. og talar eins og sá sem valdið hefur í þessu máli. Hver hefur valdið? Hver ræður þróun þessa fyrirtækis á næstu árum? Það er ekki íslenska ríkið. Það er ekki iðnrn. sem býður þar, enda ætlar ríkið að losna við þetta sem allra fyrst, hlut sinn í félaginu. Menn ættu að fara yfir sögu Elkem og hvernig það fyrirtæki hefur staðið að málum. ,,Ýtrustu mengunarvarnir``, segir hæstv. iðnrh. Já, hann var umhvrh. hér á dögunum líka. Hvernig ætli þær ýtrustu umhverfisvarnir verði? Ef litið er á það sem til stendur varðandi álbræðslu á Grundartanga þá vitum við hvað ríkisstjórnin og talsmenn hennar skilja undir ýtrustu umhverfisvörnum. Hér er m.a. stefnt í að bæta í losun á brennisteini án nokkurrar hreinsunar. Ég á eftir að sjá að það komi tillaga um vothreinsibúnað á þessa verksmiðju. Ég á eftir að sjá það. Hér er stefnt í að bæta í losun á koltvíoxíði frá Íslandi um nálægt 150 þús. tonn. Hvað var ákveðið með skógræktaráætluninni? Voru það 150 þús. tonn? Það voru 22 þús. tonn sem sem kosta 450 millj. Hvernig standa samningar hæstv. umhvrh. varðandi þetta stóra mál sem tengist loftslagsbreytingum? Ísland er að bruna fram úr skuldbindingum sínum. Með þessari ákvörðun er verið að þrengja að öðru atvinnulífi í framtíðinni þegar það verður, ef til vill í lok þessa árs, lagalega skuldbindandi fyrir Íslendinga að draga úr þessari losun. Hver á að draga úr losun? Fiskveiðar eða ferðaþjónusta? Menn ættu aðeins að gæta að sér áður en fleiri ræður af þeim toga sem sumir hafa haldið hér eru haldnar á Alþingi.