1997-03-13 11:08:04# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[11:08]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég vil svara nokkrum spurningum sem beint hefur verið til mín. Fyrst varðandi spurningu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um tilboð Landsvirkjunar til Columbia. Það hefur legið fyrir mjög lengi að staðið hefur til að stækka ef af framkvæmdum verður um byggingu álvers á Grundartanga, en þá er þar um fyrsta áfanga að ræða, þ.e. 60 þús. tonna byggingu, og gert er ráð fyrir að þar muni rísa, þegar fram líða stundir og ef af þessu verður, 180 þús. tonna verksmiðja. Viðbrögð forstjóra Landsvirkjunar voru hins vegar þau, þegar hann sá fram á að hugsanlega væri sá möguleiki að falla fyrir borð að hægt væri að selja raforku til járnblendifélagsins, að leita að nýjum markaði eins og honum ber lögum samkvæmt.

Hv. þm. Svavar Gestsson, kvartaði undan því að hv. þingmenn hefðu ekki haft gögn í málinu til að átta sig á. Því miður er það nú svo að ekki var gengið frá þessum samningum fyrr en eftir miðnætti í gærkvöldi með formlegri undirritun, en við munum innan tíðar koma gögnum og upplýsingum til hv. þingmanna um hvað í þessum samningi felst.

Spurt var um ábatan af þeim raforkusamningi sem þarna hefur verið gerður. Það er ljóst að núvirt verðmæti Landsvirkjunar af þessum raforkusamningi við járnblendifélagið á samningstímanum eru 600 millj. kr., 600 millj. kr., sem munar verulega um fyrir það fyrirtæki til að ná þeim áföngum sem menn hafa mótað í lækkun orkuverðs í landinu.

Það má endalaust deila um það og það verður sjálfsagt deiluefni hér hvert hið raunverulega verðmæti fyrirtækisins er. Það kann vel að vera að það sé hærra en 245 millj. norskra króna. Ég ætla ekki að leggja mat á það. Þetta var samningsniðurstaðan fengin með ráðgjöf bestu og færustu aðila á þessu sviði. En í samningunum síðustu daga tókst okkur hins vegar að hækka þetta verðmætamat um 200 millj. ísl. kr. og ég tel það vera nokkurn ávinning vegna þess að fyrra verð sem rætt var um var 225 millj. norskra króna.

Varðandi minnihlutaréttindin þá er ljóst að þegar þau bréf sem ríkið á í þessu fyrirtæki eftir þessa breytingu verða sett á markað þá mun það leiða til þess að ekki er hægt að hafa neinar hömlur á slíkum bréfum, þar af leiðandi eru minnihlutaréttindi ekki tryggð í þessu fyrirtæki eins og áður var enda nauðsynlegt að (Forseti hringir.) komast út úr slíkum hlutum ef menn ætla að gera þetta fyrirtæki að verðmætum fyrir ríkið.

Þeir samningar sem nú hafa verið gerðir skapa okkur stóraukin atvinnutækifæri og stóraukna sókn í atvinnu- og iðnaðaruppbyggingu á landinu. Og í nýju starfsleyfi fyrir þetta fyrirtæki munu verða gerðar ýtrustu kröfur í umhverfismálum. (Gripið fram í.)