Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 11:16:09 (4400)

1997-03-13 11:16:09# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[11:16]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er aðeins um liðið síðan umræða hófst um þetta mál. Það var gerð ítarleg grein fyrir helstu efnisatriðum málsins af hálfu annars nefndarmanns í efh.- og viðskn. í þingflokki jafnaðarmanna, hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Mér þykir samt ástæða til að draga fram nokkra þætti þessa máls og þá einkum að þetta verður að skoðast ekki aðeins út frá þeirri formbreytingu sem er fyrirsögn frv., þ.e. breyting á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög, heldur í víðara samhengi, ekki hvað síst það ákvæði frv. um að auka hlutafé um allt að 35% og selja það á almennum markaði.

Hér er verið að breyta fyrirkomulagi á ríkisviðskiptabönkum sem eiga sér mjög langa sögu og mjög langa pólitíska sögu hér á landi. Það þekkja það allir sem vita að ríkisbankakerfið hefur í marga áratugi verði meira og minna undir stjórn tveggja stjórnmálaflokka, þ.e. Sjálfstfl. og Framsfl., og tengdra fyrirtækja. Þessi helmingaskiptaregla í íslenskum fjármálaheimi og atvinnulífi hefur verið við lýði býsna lengi og í sjálfu sér erum við að takast hér á um einn anga þessa máls. Það breytir því þó ekki að flest nágrannalönd eru að draga sig út úr beinum rekstri á fjármálamarkaði.

Flest nágrannalönd okkar hafa farið þá leið að breyta rekstrarformi ríkisfyrirtækja. Mörg ríki hafa farið þá leið að selja það sem fyrrum voru ríkisfyrirtæki og hraði í því ferli fer eftir pólitískum skoðunum ríkisstjórna hverju sinni. Hér á landi höfum við hins vegar búið við tiltölulega veikan fjármagnsmarkað og þá sérstöðu að nær allur fjármagnsmarkaðurinn hefur verið rekinn af hálfu ríkisins sem er nú orðið einsdæmi í Evrópu.

Í skjóli þessarar stjórnmálalegu forsjár á ríkisbankakerfinu, einkum af hálfu Sjálfstfl. og Framsfl., hefur vitaskuld ekki verið gætt eðlilegra viðskiptalögmála nema að hluta. Þannig hafa þessar ríkisbankastofnanir oft lent í því að þurfa að útfæra pólitíska stefnu stjórnvalda, t.d. þætti í byggðastefnu, sem hefur valdið þeim íþyngingu í rekstri.

Alþjóðlegar kannanir hafa sýnt að víða er pottur brotinn í íslensku bankakerfi. Slakur rekstur er einkennandi, mikill vaxtamunur og há þjónustugjöld. Ef maður ber íslenskan bankarekstur saman við banka í útlöndum þá blasir þessi staðreynd við. Og það eru neytendur, einstaklingar og fyrirtæki sem borga þessa stöðu íslenska bankakerfisins. Það er enginn annar sem gerir það. Enginn annar en fyrirtæki og neytendur. Rekstrarkostnaður bankakerfisins er yfir 13 milljarðar eða jafnmikið og Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur kosta. Þetta er meira en allt skólakerfið fyrir utan grunnskólana kostar hér á landi. Þetta eru vitaskuld gífurlegar fjárhæðir og það ber að kanna allar leiðir til að finna þessum rekstri betri farveg hvað varðar hagkvæmni.

Það er ekki aðalatriði í þessu máli hvort að bankarnir séu reknir í ríkiseign eða í einkaeign. Það er í mínum huga ekki aðalatriði í þessu máli heldur þetta: Ríkir samkeppni á fjármagnsmarkaði? Það er það sem þarf að tryggja því það er samkeppnin á fjármagnsmarkaði eins og á markaði almennt sem tryggir hagkvæman rekstur og lág gjöld fyrir neytendur hvort sem um einstaklinga eða fyrirtæki er að ræða. Það er orðið samkeppnisvæðing sem á að vera aðalatriðið hjá okkur í umræðu um atvinnulífið hvort sem þessi atvinnustarfsemi er í eign ríkisins eða ekki.

Við Íslendingar búum við þá staðreynd að hér er mjög lítill markaður. Við erum ekki nema 270 þúsund talsins sem gerir það að verkum að markaður fyrir fyrirtæki hér er mjög lítill. Það er alþekkt úr markaðsfræðinni og rekstrarhagfræðinni að við slíkar aðstæður getur sú staða skapast að það séu tiltölulega fá fyrirtæki sem ráða ferðinni og starfa í einstökum greinum. Það er einmitt þetta sem við höfum horft upp á á mjög mörgum sviðum hér á landi. Það er fákeppni og fákeppni á mjög mikilvægum sviðum þar sem örfáir aðilar eru að keppa. Þar er samkeppnin að hluta til alls ekki jafngrimm og hún gæti verið ef fleiri aðilar væru á markaðnum. Við sjáum þessa fákeppni endurspeglast í stöðu og styrkleika nokkurra stórfyrirtækja hér á landi sem ráða meginþáttum í efnahagskerfinu hér. Allt eru þetta fyrirtæki sem bera höfuð og herðar yfir önnur og starfa á sviðum þar sem ekki er um mikla samkeppni að ræða. Við getum nefnt olíurekstur. Það eru ekki nema þrjú fyrirtæki sem standa í þeim rekstri hér á landi. Við getum nefnt tryggingarekstur. Við getum nefnt flutningarekstur og þannig mætti telja áfram. Allt eru þetta mikilvæg atvinnusvið þar sem fákeppni er einkennandi.

Það er líka merkilegt, og verður að hafa í huga í sambandi við þessa umræðu, vegna þess að ríkisviðskiptabankakerfið er pólitískt, hefur haft stimpil Sjálfstfl. og Framsfl. um áratuga skeið, að sú barátta, sem hefur verið háð alla þessa öld milli þessara tveggja stærstu flokka þjóðarinnar á pólitíska sviðinu, hefur einnig gerst á fyrirtækjasviðinu. Allir þekkja þá sögu sem skapaðist milli svokallaðs einkaframtaks og samvinnuhreyfingarinnar hér á árum áður.

Nú er komin upp önnur staða á þessum fákeppnismarkaði en hún er alveg sama markinu brennd og sú fyrri. Við erum annars vegar með tvö mjög stór og öflug fyrirtæki, Eimskipafélag Íslands, sem er langstærsti flutningsaðilinn hér á landi, og Sjóvá-Almennar, sem er næststærsta tryggingafélag landsins. Þetta eru geysilega öflug fyrirtæki, vel rekin fyrirtæki og hafa mjög mikil eignaleg tengsl inn í annan atvinnurekstur hér á landi. Þessi fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra tengjast Sjálfstfl. mjög sterkt. Það þarf ekki annað en að líta bæði á stjórnir og framkvæmdastjórn í þessum fyrirtækjum og þá sjáum við að öll þessi andlit er hægt að finna á landsfundi Sjálfstfl. hverju sinni. Hins vegar höfum við líka tvö fyrirtæki, mjög stór og öflug, Vátryggingafélag Íslands, VÍS, og Olíufélagið, ESSO. Þetta eru sömuleiðis stór og öflug fyrirtæki og vel rekin sem eiga eignaleg ítök mjög víða í íslensku atvinnulífi. Þessi tvö fyrirtæki tengjast Framsfl. meira en nokkru öðru stjórnmálaafli enda að hluta til runnin upp úr hinu eldra samvinnuveldi sem hér réði miklu á árum áður.

Undanfarin ár hefur átt sér stað ákveðin barátta í íslensku atvinnulífi milli þessara tveggja fylkinga og í fylkingarbrjósti hafa verið þessi tvö fyrirtæki á sínum vængnum hvort. Menn hafa séð þessar fylkingar takast á með hvað skýrustum hætti í sjávarútvegi undanfarin ár. Hér eiga sér stað átök, framlenging á pólitískum átökum fyrri tíma milli helmingaskiptaflokkanna sem voru á pólitíska sviðinu en einnig á hinu efnahagslega. Nú eru þessi pólitísku átök farin að færast miklu sterkar út í atvinnulífið en var áður. Þessir aðilar sem tengjast hvor sínum stjórnmálaflokki þó ég geri mér vitaskuld fulla grein fyrir að hér er ekki verið að segja að þessir menn séu að reka fyrirtæki til hagsmuna fyrir stjórnmálaflokka, svo er ekki. Hins vegar eru þessi ósýnilegu og sýnilegu tengsl, hagsmunatengsl þessara einstaklinga mjög greinileg í samfélagi okkar. Við eigum að skoða, herra forseti, frv. í ljósi þessarar stöðu.

Ég er þeirrar skoðunar að hlutafélagsformið sé hið eðlilega rekstrarform í atvinnulífinu. Það er almenn löggjöf um það rekstrarform og var einmitt í gær verið að takast á um einn þátt þessa forms þegar ráðherra skildi ekki formbreytinguna betur en svo að hann hélt að með því að fara einmitt í hið opna hlutafélagsform gæti hann skellt aftur öllum hurðum hvað varðar upplýsingagjöf. Sá hæstv. ráðherra, samgrh., skildi ekki betur þá formbreytingu sem þar átti sér stað. En sú umræða verður að bíða betri tíma.

Það er hins vegar full ástæða til þess, úr því ég nefni það atriði, að spyrja hæstv. viðskrh. hvernig verður háttað upplýsingagjöf varðandi t.d. þá þætti sem spurt var um í fyrirspurninni sem rædd var í gær, þ.e. beðið var um upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda, upplýsingar sem hluthafar geta alltaf kallað eftir á hluthafafundum. Mér þætti fróðlegt að vita, herra forseti, hver afstaða viðskrh. er þegar þetta frv. er orðið að lögum, hann fer með 100% eignarhlut ríkisins, er eini hluthafinn. Hvernig mundi hann svara því ef samsvarandi fyrirspurn kæmi fram hér á hinu háa Alþingi, þar sem spurt væri um eitthvað sem viðkemur rekstri, eitthvað sem viðkemur launakjörum æðstu manna, þ.e. hvaða upplýsingaskyldu telur hann sig hafa gagnvart Alþingi þegar að því kemur. Ég held að það væri mjög athyglisvert að vita sjónarmið ráðherra í þessu máli því þetta mál er ekki útrætt á hinu háa Alþingi.

Ég vil sömuleiðis spyrja hæstv. ráðherra, því frv. sem við erum að ræða nú ber þess merki að heimavinna hafi ekki verið unnin. Það fylgja þessu ekki þær úttektir og mat á áhrifum sem er nauðsynlegt. Þá er ég að vitna til fyrirspurnar sem þeir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Guðmundur Árni Stefánsson hafa lagt fram hér á hinu háa Alþingi og nokkrar deilur hafa skapast um, ekki út frá spurningunum eða efni þeirra heldur út frá forminu. Ég ætla ekki að ræða það hér. En þar er m.a. spurt hvort farið hafi fram úttekt þar sem fram komi mat á áhrifum á t.d. erlend lánskjör, markaðsvexti, afnám ríkisábyrgðar, stöðu tryggingarsjóðs, lánskjör þjóðarinnar, fákeppni, trúnað í bankakerfinu, samkeppnisstöðu, starfsöryggi og skattgreiðslur og áhrif á ríkissjóð. Þetta eru nokkur atriði úr þessari fyrirspurn. Þar er líka vikið að mati erlendra aðila frá því fyrir nokkrum árum um að afnám ríkisábyrgða mundi auka lántökukostnað. Allt eru þetta atriði sem nauðsynlegt er að fá afstöðu til, úttekt á og skýringar.

[11:30]

Ég vildi biðja hæstv. viðskrh. um að tjá sig um þessa fyrirspurn og þau efnisatriði sem þar koma fram og spyr hann hvernig hann ætlar sér að svara spurningunum, í hvaða farvegi þær úttektir og sú vinna getur farið fram. Ég tel nauðsynlegt að þetta liggi hér frammi við umræðuna ekki síst í ljósi þess að deilur hafa verið uppi um formið varðandi þessa tilteknu fyrirspurn.

Annað vildi ég nefna. Þegar einkavætt er hér á landi, þ.e. hlutir teknir úr ríkisrekstri og talað um einkavæðingu sem eru trúarbrögð þessarar ríkisstjórnar, sérstaklega Sjálfstfl., þá er hér um að ræða mikinn misskilning því það er ekki einkavæðing sem á að tala um, það á að tala um samkeppnis\-væðingu.

Við höfum séð það gerast að einkavæðingin hefur orðið einkavinavæðing. Við höfum séð að fyrirtæki hafa farið úr ríkisrekstri til þess eins að fara í fákeppnisrekstur nokkurra aðila. Þá, herra forseti, er verr af stað farið en heima setið. Aðalatriðið við breytingar á íslenska bankakerfinu, og þær eru nauðsynlegar, er að þær séu gerðar þannig að samkeppni sé tryggð, áhrif margra séu tryggð en ekki áhrif fárra.

Hér eru stigin fyrstu skref til að minnka hlut ríkisins, að auka hlutaféð um 35% og selja það. Það er ekki, herra forseti, kveðið á um hvort selja megi öll þessi 35% kannski að helmingi til Eimskips og að helmingi til VÍS. Það er ekkert kveðið á um það í þessu frv. Og það er fráleitt að afgreiða þetta jafnvel þótt stjórnin hafi til þess þingmeirihluta. Ég boða strax, hér og nú, brtt. Ef ekki tekst að hnekkja hér öðrum ákvæðum þá munum við jafnaðarmenn flytja brtt. um að ætli ríkisstjórnin að fara þessa leið þá skuli hún alla vega gera það með ákvæði í lögum um að t.d. einn aðili megi ekki kaupa meira en 5% af þessum 35% eða eitthvað þess háttar. Þá brtt. munum við jafnaðarmenn flytja við 2. umr. Það er forkastanlegt en sýnir samt pólitík að ríkisstjórnin skuli leggja þetta fram svona. Vegna þess að hún er ekkert að einkavæða. Hún er að færa pólitískt forræði ríkisviðskiptabankanna yfir á forræði vinafyrirtækja sinna í þessu þjóðfélagi sem eru tengd stjórnmálaflokkunum. Það er það sem er að gerast. Það sem ég hef verið að draga upp eru þessi átök sem áttu sér stað á árum áður milli samvinnuhreyfingar og einkaframtaks, milli Sjálfstfl. og Framsfl. Þeir tóku höndum saman nokkrum sinnum í ríkisstjórn og skiptu upp á milli sín atvinnurekstrinum þegar þeim passaði, eins og frægasta dæmið sýnir sem er verktakaiðnaðurinn á Keflavíkurflugvelli þar sem menn gerðu sitt fræga helmingasamkomulag. Þessi stefna þessara tveggja flokka endurspeglast í frv. Það sem mér finnst miður er að ekki skuli vera gengið róttækt til verka og stokkað upp í íslenskum bankaheimi.

Það hefði t.d. verið hægt að gera með því að breyta vitaskuld báðum bönkunum í hlutafélagsform, að því tilskildu að ráðherrarnir ætli ekki að misnota það form --- við fáum nú einhver svör við því hjá ráðherranum --- og ríkið mundi þá áfram eiga annan ríkisbankann en taka hinn --- ég er ekki á þessu stigi málsins að tilgreina hvorn --- og selja í honum hlut, bjóða t.d. út á erlendum markaði þannig að við fengjum sterka erlenda eignaraðild í öðrum ríkisviðskiptabankanum, t.d. allt að 1/3. Ég held að það væri mjög gott fyrir íslenskan fjármálaheim að fá slíka sterka þátttöku erlendis frá sem mundi örva fagleg vinnubrögð og veita nýja sýn á rekstur bankakerfisins. Ég tel að svona ætti að standa að málum. Það er betra að hafa faglegan erlendan banka í rekstri hér heldur en þessa fákeppnisaðila í hinu þrönga íslenska atvinnuumhverfi þar sem allir eru meira og minna tengdir og eru ekki hvað síst að gæta síns pólitíska baklands. Síðan er hugmynd sem við höfum velt fyrir okkur og hefur verið kastað fram í umræðunni. Hún er sú hvort ekki gæti verið skynsamlegt að dreifa eignaraðildinni þannig að ríkið mundi senda öllum fjárráða Íslendingum hlutabréf í þeim banka sem verið væri að einkavæða. Þá væri tryggð breið eignaraðild og vitaskuld mundi skapast eftirmarkaður eftir það. Einhverjir mundu eiga hlutabréf sín og einhverjir mundu selja. Og vitaskuld væri hægt með löggjöf að tryggja að enginn mætti eignast meira en 5% eða hafa meira en 5% atkvæðisrétt á hluthafafundi af innlendum aðilum. Þetta er hugmyndafræði sem mér finnst full ástæða til að ræða hér því það er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki ríkisstjórnin sem á þessa banka, og það er ekki Sjálfstfl. og ekki Framsfl. sem eiga Landsbankann eða Búnaðarbankann þó að þeir hafi rekið þá frá stofnun þeirra, það er þjóðin, íslenskur almenningur, sem á þessar bankastofnanir. Og ef menn vilja koma þessum bankastofnunum í eigu annarra en ríkisins, þá er náttúrlega einfaldast og eðlilegast að þær fari beint í eigu fólksins í landinu. Vitaskuld má líka hugsa sér að ef til sölu kemur þá fái starfsmenn möguleika til að kaupa hlutabréf á ívilnandi kjörum. Sú leið hefur oft verið farin. Ég vil benda á að sú hugmynd sem ég er að lýsa hefur verið útfærð víða erlendis og gefist ágætlega. Það væri miklu nær, herra forseti, að skoða þetta mál út frá einhverri slíkri róttækni sem þessi hugmynd og aðrar svipaðar hafa í för með sér heldur en að leggja til þetta frv. hér, sem fjallar ekki um neitt annað en að byrja á að búa til möguleika til að koma bankastofnununum yfir í hið tiltölulega þrönga atvinnuumhverfi sem við því miður búum við.

Það sýnir best hvað helmingaskiptareglan er rík að í frv. er ekkert kveðið á um fjölda bankastjóra. Það er ekki kveðið á um að það sé einn bankastjóri sem eigi að reka bankann, eins og oft hefur verið talað um að yrði, eða þá þrír. Ástæðan er einföld. Ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki búnir að semja um hver fær hvaða bankastjórastöðu og hvort það eigi að vera yfirbankastjóri eða aðalbankastjóri og hver hann eigi að vera. Það er ekki búið. Þeir verða líklega þrír og hugsanlega búið að semja um það en ég veit það ekki, ég veit ekki hver fær hvað. Það eru fleiri bankastjórastöður eða stórstöður sem eru núna í samningum milli ríkisstjórnarflokkanna eins og allir vita. Það er forstjórastaðan í nýja Fjárfestingarbankanum og það eru einnig lausar stöður í tengdum ríkisfyrirtækjum og jafnvel rætt um ráðherra í því sambandi. Við sjáum hvað hér er að gerast. Hér er eina ferðina enn verið að hygla pólitískum vinum eða fylgismönnum þessara stjórnarflokka. Ég vil líka taka fram að aðrir flokkar hafa svo sem komið að slíkum viðskiptum heldur en þessir tveir ríkisstjórnarflokkar. Það hafa aðrir komið að slíku. Ekkert er kveðið á um þessi blessuð bankaráð í bönkunum, þ.e. hvort bankaráðsmenn eiga að vera fimm eða fimmtán, en ráðherra skýrir það nú kannski betur. En ég vil vekja athygli á einu. Allt vald er fært til viðskrh., hann fer einn með valdið, 100% atkvæðarétt, hann einn. Ég hef svolitlar áhyggjur af þessu. Ekki vegna þess að ég vantreysti hæstv. iðn.- og viðskrh. Ég treysti honum betur að fara með atkvæðið heldur en kannski hæstv. samgrh. Látum það nú vera. Það má velta vöngum yfir því hvort það fyrirkomulag sé rétt að það sé einungis einn ráðherra. Auðvitað á framkvæmdarvaldið að gera þetta, ég er ekki á því að Alþingi eigi að gera þetta. En ég vek athygli á að það er stór spurning hvort ef til vill eigi að setja einhver nánari fyrirmæli í lög varðandi þennan þátt sem gengju þá út yfir almenn ákvæði sem eru í hlutafjárlögum. Það væri ef til vill ekki óeðlilegt við þessar sérstöku aðstæður.

Það er annað sem menn gleyma mjög oft í þessari bankaumræðu. Menn halda að þetta séu mjög sterkar stofnanir. Þær eru það ekki. Eigið fé Búnaðarbankans er 4 milljarðar, eigið fé Landsbankans er 6 milljarðar. Þetta eru vesælir 10 milljarðar. Það er ekki mikið í íslensku atvinnulífi. Eigið fé Eimskipafélagsins --- ég tek það nú stundum sem dæmi, það eru að vísu til sterkari félög heldur en Eimskipafélagið --- eigið fé Eimskipafélagsins er núna rúmlega 6 milljarðar, það er meira en eigið fé Landsbankans, það er vanmetið um nokkuð marga milljarða. Markaðsverð Eimskipafélagsins er um 18 milljarðar. Eimskipafélagið er miklu öflugra heldur en báðir bankarnir til samans og fjárhagslegur styrkleiki þeirra tveggja tryggingafélaga sem ég nefndi áðan er miklu meiri heldur en Eimskipafélagsins, þannig að menn sjá í hvílíku umhverfi við erum. Við erum að tala um mjög veikar stofnanir. Það er ein af ástæðunum fyrir því að þegar kemur að umræðu um fjárfestingarbankann munum við tala fyrir því sjónarmiði að það hefði átt að taka þessa sjóði sem eru í ríkiseigu, setja þá inn í þessa veiku peningastofnanir til að gera þær að alvörubönkum. Það gera þessir menn ekki. Þeir eru að búa til kerfi til að gæta sinna pólitísku hagsmuna. Það er því miður ekki hugsað á rekstrarforsendum. Það er ekki gert, heldur er hér hugsað út frá pólitískum sjónarmiðum fortíðarinnar.

Vitaskuld þarf að gæta mjög vel að réttindum starfsmanna, það er kveðið á um það í lögunum. Þarna eru álitaefni sem hugsanlega getur orðið ágreiningur um eins og biðlaunamál. Vonandi eru lífeyrisréttindi --- ég skil það svo að þau séu tryggð með þessu frv. en auðvitað ber að leggja mikla áherslu á það við slíka formbreytingu, ekki hvað síst í eftirmálanum, að hagsmuna starfsmanna sé gætt því það er nú með þessa banka eins og ýmis önnur fyrirtæki í eigu ríkisins að það verðmætasta við þau er starfsfólkið. Það er ekki efnahagsreikningurinn, hann er ekki verðmætur og það er ekki mjög merkilegur efnahagsreikningur þessara banka. Rekstur þeirra hefur reyndar verið misjafn, mjög dapur af hálfu Landsbankans undanfarin ár enda hefur ríkið margoft þurft að grípa inn í þann banka með milljörðum af skattpeningum á meðan rekstur Búnaðarbankans, til að gæta fullrar sanngirni, hefur verið í góðu lagi. Þar hefur mönnum líka tekist betur að halda pólitískum afskiptum frá þeirri bankastofnun heldur en oft áður. Alla vega er mun minna um það í þeim banka heldur en í Landsbankanum þótt í grundvallaratriðum sé þetta allt byggt á pólitískum hlutföllum þessara tveggja ríkisstjórnarflokka. Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að svör fáist við þeim spurningum sem ég gat um hér áðan, einkum hvað varðar þær úttektir eða þau áhrif sem þetta frv. hefur í för með sér. Það er ekki hægt að taka afstöðu til málsins fyrr en þetta liggur ljóst fyrir.

Það verða mín lokaorð í þessari umræðu að það hefði átt að hugsa þetta frv. öðruvísi. Það hefði átt að reyna að stokka róttækt upp þannig að við hefðum staðið með öflugar peningastofnanir, aukna samkeppni, dreifða eignaraðild og hagkvæmari rekstur sem kæmi sér vel bæði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og atvinnulífið í landinu.