Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 11:46:27 (4402)

1997-03-13 11:46:27# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[11:46]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra hafi veitt þetta svar við einni af þeim spurningum sem ég bar upp. Hann sagði efnislega að hann mundi síðar í umræðunni taka til svara nokkur af þeim atriðum sem getið er um í tiltekinni fyrirspurn. Þeim sem hann getur ekki svarað núna og hefur ekki tök á, enda eru margvísleg atriði sem krefjast víðtækari úttektar. Því muni hann hlutast til um að sú vinna fari fram og þetta verði aðgengilegt hjá viðkomandi þingnefnd og komi þá hér inn í þessa umræðu.

Ég tel, herra forseti, að þetta sé mikilvægt mál. Og hann undanskildi ekkert í þessari fyrirspurn sem hér var til umræðu þó að ég hafi bara drepið á nokkra þætti. Hann talaði almennt um öll þessi atriði, að það mundu koma svör við þeim, hluti í umræðunni síðar af hans hálfu og síðar í úttektum sem hann mun standa fyrir og munu verða þá viðkomandi þingnefnd aðgengileg. Ég þakka ráðherra fyrir þessa afstöðu og þann farveg sem hann beinir þessu mikilvæga máli í því að það er alveg ljóst í mínum huga og annarra að þessi efnisatriði eru forsenda þess að fram geti farið vitræn umræða um þetta stjfrv. Það var vanbúið þegar það kom til þings en ráðherra hefur nú bætt nokkuð úr því með svörum sínum við spurningu minni.