Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:25:04 (4416)

1997-03-13 15:25:04# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:25]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að hæstv. viðskrh. ræddi ekkert um samgrh. í sinni ræðu. Hins vegar tók hann afstöðu til þessarar sömu spurningar og hæstv. samgrh. var spurður í gær, þ.e. um upplýsingaskyldu varðandi tiltekna þætti. Ég sagði að ráðherrann hefði farið alveg rétt með, hann vísaði rétt bæði til stjórnarskrár og laga um hlutafélög og ársreikninga. Það er mín ályktun og þingheims alls að hér er berlegt, og ráðherra í ríkisstjórn staðfestir að málsmeðferð annars ráðherra í algjörlega sambærilegu máli hafi verið á skjön eða brot við núgildandi lög og meira að segja hægt að vísa til stjórnarskrár lýðveldisins. Það mun verða rætt á öðrum vettvangi. Ég ætla ekkert að draga hæstv. viðskrh. frekar inn í deilur stjórnarandstöðunnar, og fleiri þingmanna, við hæstv. samgrh. Samgrh. er fjarstaddur og hefur ekki tækifæri til að koma að þeirri umræðu núna. En það er alveg ljóst að þetta mál sem snýst um grundvallaratriði verður að skoðast miklu betur og það er ekki hægt að láta ráðherra komast upp með það sem hann gerði hér í gær, en það snertir annan ráðherra.

Ég er mjög ósammála hæstv. ráðherra um það að ekki sé hægt að setja í lög um takmörkun við söluna, að t.d. einn aðili fái ekki leyfi til að kaupa meira en 5% og fara með meira en 5% atkvæðisrétt, hann og tengdir aðilar á aðalfundi. Það mun reyna á það í atkvæðagreiðslu um brtt. okkar. Það tókst mjög illa til með einkavæðingu SR. Það er rétt sem ráðherra segir. Þetta var í umsjón hæstv. sjútvrh. sem fól verðbréfafyrirtæki þetta mál. Það er rétt að það var ekki einkavæðingarnefnd. En málið var jafnalvarlegt fyrir því. Þetta var virt verðbréfafyrirtæki. Það var boðið út og hæsta tilboði var ekki tekið og þeim var ekki gefinn kostur á að standa við hæsta tilboð vegna þess að mönnum hugnaðist ekki kaupandinn. Það gagnrýni ég varðandi framkvæmd þess máls, ekki í sjálfu sér verðið, heldur hvernig staðið var að því þegar útboðin voru opnuð.