Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:31:00 (4419)

1997-03-13 15:31:00# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:31]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að þessi samtöl bera árangur og það er fagnaðarefni. Ég vil aðeins rifja upp að það er tvennt sem veldur því að bankakerfið á Íslandi er dýrt og erfitt og það þarf að taka á því. Annars vegar er það útibúakerfið sem er bersýnilega kostnaðarsamt og þar er ég ekki bara að tala um að útibúakerfið á landsbyggðinni heldur líka útibúakerfið í Reykjavík. Í öðru lagi er það sá veruleiki að bankarnir geta ekki þjónað stærri fyrirtækjum og það er af þessum tveimur ástæðum sem menn hafa verið að velta því fyrir sér að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann. Í framhaldi af þessum viðbrögðum ráðherrans spyr ég hann: Er það opið af hans hálfu að efh.- og viðskn. kanni hvort best sé og hagkvæmast að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann og mundi hann taka tillögu nefndarinnar um það efni vel ef sýnt væri fram á að það væri besta leiðin til að stuðla að hagræðingu í bankakerfinu?