Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 16:21:07 (4426)

1997-03-13 16:21:07# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[16:21]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt atriði sem ég vildi gera athugasemd við í ræðu hv. þm. Ég ætla ekki að tjá mig efnislega um niðurstöðu hans um þetta frv. en hann rakti og að mínu mati alveg réttilega að þetta frv. tengist helmingaskiptafyrirkomulagi stjórnarflokkanna. Ég rakti í ítarlegu máli hér í morgun hvernig fjármálakerfið hefur verið, en hann lét sérstaklega að því liggja að þetta væri með einhverri hjálp eða aðstoð Alþfl.

Nú ætla ég í sjálfu sér ekki að svara fyrir Alþfl. En mér er málið að því leytinu skylt að ég starfa í þingflokki jafnaðarmanna og þar eru þingmenn Alþfl. Þó svo að ég sé kosinn á þing fyrir Þjóðvaka, þá vil ég að afstaðan sem við höfum tekið í þingflokki jafnaðarmanna sé alveg skýr í þessari umræðu, en hún hefur verið flutt af þingmönnum flokksins með ýmsum blæbrigðum vitaskuld, að það er engin tenging við þessa helmingaskiptaútfærslu ríkisstjórnarinnar eins og hér er lagt upp með. Það eru engir baksamningar til í þessu efni að mínu viti og við skulum hafa þetta alveg rétt hvað þennan þátt varðar. Stjórnin leggur fram þetta frv. og ætlar að fylgja því eftir. Þó svo að menn eigi vitaskuld forsögu í gamla kerfinu, sem ég hef gagnrýnt kannski mönnum frekar, um bankastjórastöður og tengingu við flokka og annað slíkt, Alþfl. eins og aðrir, þá er ekki hægt að tengja aðstoð þess flokks að því ég best veit á nokkurn hátt við þetta frv.