Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 16:47:14 (4430)

1997-03-13 16:47:14# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[16:47]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en mér finnst þetta satt að segja ekki alveg ganga upp. Út af fyrir sig get ég fallist á það með honum að það gæti verið markmið, burt séð frá afstöðu minni til þess, að segja sem svo: Allir skulu fá sömu aðstæður, allir skulu búa við sömu aðstæður. En það er ekki verið að gera tillögu um það hér heldur. Það er ekki verið að því. Það er verið að segja: ,,Það má kannski undirbúa það að það gerist einhvern tíma í framtíðinni. En það er ekki verið að taka ákvörðun um að allir búi við sömu aðstæður.`` Þess vegna finnst mér að þetta gangi ekki rökrétt alveg upp eins og þetta er sett upp af hæstv. ráðherra hér í síðustu ræðu hans.

Auðvitað mætti hugsa sér líka, herra forseti, þá leið að Landsbankinn og Búnaðarbankinn yrðu sameinaðir og þeim yrði eða hinum sameinaða banka breytt í hlutafélag sem væri að öllu leyti látið sæta sömu reglum og almennt gilda um hlutafélög. Af hverju er sú leið ekki könnuð alveg eins og þessi?