Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 18:04:31 (4441)

1997-03-13 18:04:31# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., GMS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[18:04]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Mér þykja vera fáir þingmenn í salnum og sérstaklega sakna ég þess að hér skuli ekki vera fleiri ráðherrar en hæstv. viðskrh. Það eru býsna stór mál sem menn eru að fjalla um hér og mér þykir að það hljóti að vera mjög stór mál sem aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar fjalla um ef þeir geta verið fjarverandi við þessa umræðu.

Herra forseti. Ég styð ekki þetta frv. um fjárfestingarbanka og ég er andvígur þeirri stefnu að fara nú undir lok þessarar aldar að búa til nýjan ríkisbanka. Fjárfestingarlánasjóðir eru börn síns tíma sem eiga sér vart nokkra hliðstæðu í vestrænum löndum. Ég kýs að lifa í nútíðinni og ég neita alfarið að taka þátt í afturhvarfi til fortíðar eins og þetta frv. felur í sér. Stofnun sérstaks fjárfestingarbanka er stökk 15 ár a.m.k. aftur í tímann og það hryggir mig ef sá hluti stjórnarmeirihlutans sem að öllu jöfnu vill lifa í nútíðinni lætur múlbinda sig í þessu máli.

Hér er um að ræða gamla kratahugmynd, gamla hugmynd frá hæstv. fyrrv. viðskrh., Jóni Sigurðssyni, sem hann reyndi að koma í gegn á sínum tíma en þá var það hæstv. forsrh., eftir því sem sögusagnir herma, sem stoppaði það mál auk nokkurra hæstv. þingmanna Alþfl. Ég dáðist á þeim tíma að hæstv. forsrh. fyrir það að stoppa þetta mál því ég hef alla tíð talið að það væri tímaskekkja.

Með þessu frv. finnst mér ríkisstjórnin vera komin á það sem ég kalla mjólkurbúðastigið. Ég veit ekki hvort menn muna eftir því að fyrir allmörgum árum deildu menn mjög hart um það hvort mjólk ætti að selja í sérstökum búðum eða hvort það væri hugsanlega hægt að afgreiða og selja mjólk inni í stórmörkuðum. Menn greindi mjög á og það voru mjög sterk öfl sem töldu að heimurinn mundi farast af mjólk yrði ekki afgreidd í sérstökum búðum. Mér finnst að með þessu frv. sé ríkisstjórnin að bera sig að því að hún sé á mjólkurbúðastiginu.

Ég er þeirrar skoðunar að mestu hagræði í bankakerfinu væri unnt að ná með því að láta viðskiptabankana annast langtímalánin. Nú er í sjálfu sér ekkert sem bannar viðskiptabönkunum að fara út í langtímalánveitingar eða annast þær en við vitum að það er mjög erfitt fyrir viðskiptabankana að byggja upp samkeppni við lánasjóð sem þegar er með krossveð í öllum fasteignum og vélum helstu fyrirtækja í iðnaði og sjávarútvegi á Íslandi. Það verður erfið samkeppni. Að sjálfsögðu fara viðskiptabankarnir út í þessa samkeppni og að sjálfsögðu munu þeir hafa betur heldur en þessi banki þegar tímar líða en það verður að hins vegar erfið samkeppni sem tefur framgang hagræðinga í þessu máli. Ég minni á það að viðskiptabankarnir eru nú þegar farnir að bjóða góð fjárfestingarlán og hafa sýnt að þeir eru vel samkeppnisfærir um langtímalán.

Sú leið sem hér er lagt til að fara er hins vegar sú versta að mínu mati sem hægt væri að fara ef menn ætluðu að breyta því kerfi fjárfestingarlánasjóða sem nú viðgengst hér. Að mínu mati koma einkum tvær leiðir til greina. Sú besta að mínu mati var að leggja sjóðina inn í viðskiptabankana og skapa þannig stórar og hagkvæmar lánastofnanir. Þetta er einföld leið. Það væri hægt að framkvæma þetta þannig að annaðhvort gefa bönkunum kost á því að kaupa inn þau skuldabréf og yfirtaka þau lán sem fjárfestingarlánasjóðirnir hafa tekist á hendur, kaupa þau skuldabréf sem varða fyrirtæki sem eru í viðskiptum við viðkomandi banka eða þá að leggja einfaldlega viðkomandi lán inn í viðskiptabankana, auka þar með eigið fé þeirra og svo geta menn farið með þau hlutabréf sem ríkið fengi í staðinn út á markað og selt og þannig mundi ríkið losa 9 eða 10 milljarða sem það á í eigin fé í þessum lánasjóðum.

Ef menn geta ekki orðið sammála um þessa leið, sem virðist nú liggja fyrir a.m.k. að ríkisstjórin vill ekki fara, þá er hin leiðin að breyta núverandi sjóðum í hlutafélög, afnema atvinnugreinamörkin sem eru hjá þessum sjóðum núna og láta síðan þessa sjóði keppa um lántakendur. Ég hélt í einfeldni minni að stjórnarmeirihlutinn tryði á samkeppnina og mátt samkeppninnar og það að samkeppni yrði til þess að bæta hag lántakenda, yrði til þess að lækka lántökukostnað og bæta kjörin fyrir atvinnulífið. Ég er sannfærður um það að með þeim fjárfestingarbanka sem hér á að koma upp, þessari mjólkurbúð, þá mun samkeppni verða heft stórlega um mörg ár.

Ég er líka sannfærður um að sú leið sem hér á að fara hefði ekki verið valin í nokkru öðru vestrænu ríki og ég furða mig á því hvað valdi því að nú eigi að fara að lemja þetta mál í gegn og það þrátt fyrir ráð þeirra manna sem að öllu jöfnu hafa mest traust ríkisstjórnarinnar í bankamálum. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að fá að vitna í viðtöl við þá Kjartan Gunnarsson, bankaráðsformann Landsbankans, og Tryggva Pálsson bankastjóra. Þá vitna ég fyrst í Morgunblaðið laugardaginn 8. mars þar sem er viðtal við bankaráðsformann Landsbankans. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þá vék Kjartan að fyrirætlunum um að breyta fjárfestingarlánasjóðum atvinnulífsins. Landsbankinn hefði haft forustu um að leggja til við ríkisstjórnina að eignir sjóðanna verði seldar viðskiptabönkunum og þeir taki við hlutverki þeirra með þeim hætti. Slík breyting myndi styrkja bankakerfið og lækka rekstrarkostnað þess, sem yrði viðskiptamönnum bankanna til hagsbóta. Hann væri ekki hrifinn af þeirri hugmynd að stofna sérstakan fjárfestingarbanka að meiri hluta í eigu ríkissjóðs og teldi fyrrgreinda aðferð farsælli leið til þess að ná hratt fram markmiðum ríkisstjórnarinnar.

Kjartan bætti því við að næsta stórverkefni á þessu sviði hlyti að verða að kanna frekar möguleika á nánari samvinnu og samruna fyrirtækja á fjármálamarkaði ... Það væri mjög brýnt með tilliti til harðnandi samkeppni bæði hér á landi og að utan. Hann rifjaði upp hugmyndir Björgvins Vilmundarsonar, bankastjóra Landsbankans, um haginn af því að sameina Landsbanka og Búnaðarbanka og sagði að það væri hægt að hugsa sér fleiri sameiningar eða samruna á fjármálamarkaði.``

Í viðtali, herra forseti, við Dag-Tímann þann 21. febrúar 1997 lýsir Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., og bankaráðsformaður Landsbankans, svipuðum hugmyndum og ég hef hér haft eftir honum úr Morgunblaðinu.

Herra forseti. Nýverið kom í Viðskiptablaðinu, ég held að það hafi verið í síðustu viku, viðtal við Tryggva Pálsson bankastjóra Íslandsbanka. Tryggvi Pálsson er án efa einn af þeim bankamönnum á Íslandi sem þekkja hvað best til bankamála og, með leyfi herra forseta, ætla ég að fá að lesa kafla úr þessu viðtali Viðskiptablaðsins við Tryggva Pálsson þar sem hann segir:

,,Verslunarlánasjóður er fjórði stærsti fjárfestingarlánasjóður landsins á eftir Fiskveiðasjóði, Iðnlánasjóði og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þetta er sjóður upp á rúma 9 milljarða kr. Hann er 100% í eigu Íslandsbanka og veitir löng veðlán óháð atvinnugreinum.

Tryggvi bætir við að þetta sé lánastarfsemi sem eðlilegt sé að hafa innan bankanna. Það sama má reyndar segja um húsnæðislánin og ef við værum ekki með þetta ríkiskerfi í húsnæðislánunum sem nýtur náttúrlega sérkjara, þá væru húsnæðislánin hér í bönkunum eins og erlendis er. Manni finnst að bæði löngu lánin til atvinnuveganna og húsnæðislánin muni, horfandi nokkur ár fram í tímann, meira og meira renna inn í sömu einingar. Verslunarlánasjóðurinn veitir löng veðlán með lágmarkskostnaði. Það eru þrír starfsmenn sem halda utan um þennan efnahagsreikning, að vísu með bakstuðningi annarra starfsmanna bankans og við erum með kostnaðarhlutfall mun lægra en sést hjá öðrum sjóðum. Meginmálið er að löng veðlán þurfa alls ekki að vera í séreiningum. Verslunarlánasjóður er í raun bara sérdeild í bankanum og þyrfti alls ekki að bera sérstakt heiti og okkur er ekkert til vanbúnaðar að veita löng lán til allra atvinnugreina.``

Herra forseti. Hér hefur verið vitnað til manna sem þekkja lánastarfsemi og ég er sammála því mati sem þarna kemur fram. Lánasjóðir eiga að fara inn í viðskiptabankana. Það ber besta leiðin til að skapa grundvöll góðrar, skilvirkrar og ódýrrar lánaþjónustu fyrir atvinnulífið. Ríkisstjórn Íslands verður að ná sér út úr mjólkurbúðahugsunarhætti. Fjárfestingarlánasjóðir voru börn síns tíma rétt eins og mjólkurbúðirnar voru en nú er mál að linni. Í dag versla menn í stórmörkuðum og vilja alla þjónustu á einum stað, bankaþjónustu rétt eins og kaup á mjólk og fiski.

Fjárfestingarlánasjóðir eru reyndar að mestu séríslenskt fyrirbæri. Ef við lítum á athugasemdir við frv. til laga um stofnun fjárfestingarbanka atvinnulífsins, lið 4 sem ber yfirskriftina Mat á valkostum, þá segir þar um niðurstöðu fjármálafyrirtækisins J.P. Morgans að viðskiptabankar í Evrópu bjóði svipaða þjónustu og fjárfestingarlánasjóðirnir þrír, en sú þróun sé þó ný af nálinni á Norðurlöndunum. Fjárfestingarlánasjóðir, sem reistir voru á svipuðum forsendum og hérlendir sjóðir, hafi þróast í mismunandi áttir og brugðist með mismunandi hætti við breytingum á starfsumhverfi sínu. Þær breytingar felast m.a. í aukinni samkeppni þar sem fleiri aðilar, svo sem viðskiptabankar, hafa sótt á þennan markað.`` --- Og síðan segir, herra forseti: ,,Finna má dæmi um starfandi fjárfestingarlánasjóði eins og danska iðnlánasjóðinn, FIH, sem veitir langtímalán til atvinnulífsins.``

[18:15]

Í þessari sömu greinargerð segir einnig:

,,Það er mat J.P. Morgan að með tilliti til líklegrar þróunar næstu ára megi ætla að starfsemi fjárfestingarlánasjóða og viðskiptabanka verði samþætt. Viðskiptamenn þessara stofnana séu hinir sömu og þekking á starfseminni til staðar.``

Enn þá furða ég mig á því hvernig í ósköpunum menn komust að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að búa til nýjan ríkisbanka til að veita löng lán. Ég sagði áðan að þetta væri séríslenskt fyrirbæri. Þetta er svo mikið séríslenskt fyrirbæri að orðið fjárfestingarlánabanki er mér vitanlega einfaldlega ekki til á enskri tungu. Á enskri tungu tala menn stundum um investment bank en það er bara allt annar hlutur. Það svarar til verðbréfafyrirtækja rétt eins og Kaupþings og Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka og hefur ekkert að gera með fjárfestingarlán til atvinnuvega. Ég spyr sjálfan mig hvernig í ósköpunum standi á því að Íslendingar skuli alltaf þurfa að vera að finna upp hjólið. Menn verða að fara að átta sig á því að tími fjárfestingarlánasjóðanna er liðinn. Svefnfriður þeirra sem lána peninga er löngu rofinn. Tími þess fyrirkomulags sem gilt hefur hér um áraraðir, að fjármagnseigendur láni ríkisstofnunum fé til að endurlána og þar með taka áhættu fyrir fjármagnseigandann, er liðinn. Í nútímarekstri eru milliliðir miskunnarlaust skornir burtu. Fjárfestingarbanki er í sjálfu sér ekkert annað en óþarfa milliliður sem í besta falli situr uppi með verstu lántakendurna þegar fram líða stundir. Fólk verður að fara að átta sig á því að vaxtakostnaður af lántöku til endurlána auk vaxtaálags til þess að dekka rekstrarkostnað fjárfestingarlánasjóðs er það gólf sem opinberir sjóðir geta lægst verðlagt sig á. Öðru máli gegnir hins vegar um lífeyrissjóði, verðbréfasjóði og tryggingarsjóði og ég vek athygli á því að tryggingarsjóðir tryggingafélaganna eru býsna stórir sjóðir.

Þessir sjóðir geta allir leyft sér að líta svo á að það fé sem þeir hafa til útlána sé þeirra eigið fé þar sem aðeins skiptir máli að reyna að ná sem bestri ávöxtun og þar skiptir máli að höggva inn í það álag sem þessir milliliðir reyna að næla sér í eða lifa á. Og bankarnir munu hefja samkeppni við þennan nýja ríkisbanka. Og ég get fullyrt, herra forseti, að bankarnir eru í mun betri stöðu en þetta nýja ríkisbákn til þess að meta hvaða viðskiptavinir eru góðir og hverjir ekki. Ég spái því að þegar við ræðum um endalok hvað þennan banka varðar þá séum við að ræða um fimm til sjö ára líftíma á þessum banka. Undir lokin mun þessi banki sitja uppi með erfiðustu viðskiptavinina og þá kann það að verða þrautalendingin fyrir þá ríkisstjórn sem þá situr að sameina þennan sjóð Byggðastofnun því eins og máltækið segir þá sækjast sér um líkir.

Ef litið er á rekstrarafkomu þessa banka, væntanlega rekstrarafkomu, þá á eigið fé bankans að vera um tæpir 9 milljarðar kr. Ég held að flestir muni telja eðlilegt að ríkið setti þessum banka arðsemiskröfu og 15% arður væri ekki óeðlileg arðsemiskrafa að minnsta kosti á almennum markaði. Það mundi þýða að arðurinn þyrfti að vera 1.350 millj. kr. af þessum 9 milljörðum. Nú hefur að vísu verið upplýst hér í framsöguræðu hæstv. viðskrh. að krafan á fyrsta ári sé 8,5% arðsemi af eigin fé, þ.e. 2--3% meira en menn geta haft með því að lána eða kaupa ríkisskuldabréf.

Ef við lítum á efnahag Iðnlánasjóðs á árinu 1995 þá var hann 17 milljarðar kr., Fiskveiðasjóður var með 26 milljarða í efnahag sem er samtals 43 milljarðar og þar af voru 40 milljarðar í útlán. Áætlanir fyrir nýja bankann eins og upplýst var hér í dag er að eignir verði upp á 50 milljarða og útlán upp á 43 milljarða eða með öðrum orðum að ekki sé gert ráð fyrir að viðskiptabankarnir nái til sín neinu af þeim lánum sem í dag eru inni í þessum þremur lánastofnunum sem þarna eru að sameinast.

Á árinu 1995 voru hreinar vaxtatekjur þessara tveggja sjóða, Iðnlánasjós og Fiskveiðisjóðs upp á 1.089 millj. kr. Þá á eftir að draga frá allan rekstrarkostnað og framlög í afskriftareikning en í skýrslu Iðnlánasjóðs fyrir sama ár er tekið fram að almennt framlag í afskriftasjóð sé 2,45% af útlánum og áföllnum vöxtum fyrir utan sérstakar afskriftir. Ég spyr hvort menn þurfi frekar vitnanna við. Hér er verið að gera tóma vitleysu. Það er verið að setja á 9 milljarða í eigið fé til að standa á bak við 40 milljarða í útlán sem samkeppnisaðilarnir að mínu mati munu fljótt kroppa niður um að minnsta kosti fjórðung. Sé litið til reynslunnar eru hreinar vaxtatekjur sem vænta má upp á 1,1 milljarð að hámarki auk síðan arðs af eigin fé þessa banka. Það er áður en rekstrarkostnaður er greiddur eða lagt í eðlilegan afskriftasjóð og á sama tíma og eðlileg afskriftakrafa af 9 milljörðum í slíkum rekstri er upp á 1,3 milljarða kr. Þetta dæmi gengur einfaldlega ekki upp og ég spyr: Hvar lærðu þeir sína stærðfræði sem leggja til að banki sé stofnaður þar sem vantar allan rekstrargrundvöll? (Gripið fram í: Í Samvinnuskólanum.) Ekki veit ég það en sú stærðfræði hefur alla vega ekki verið lærð í Singapúr.

Gera menn sér grein fyrir því að það álag sem slíkur banki getur vænst að komast upp með að leggja á lán þegar hinir bankarnir hafa vaknað til vitundar um að þeir eru komnir í samkeppni við þennan nýja banka er að hámarki 0,6--1%? Hér var að vísu upplýst áðan að þess væri vænst að vaxtaálagið yrði 1,8--2% og þá verð ég að segja að mig minnir, herra forseti, að Iðnlánasjóður haldi því fram að þeirra meðalvaxtaálag sé 1,6%. Þannig að ég skil ekki hvar hagræðið liggur ef vaxtaálagið á að aukast við að sameina þessa sjóði. Fyrir mér gengur þetta dæmi einfaldlega ekki upp. Ég spyr í einlægni, herra forseti: Má ekki gera kröfu til þess að ríkisvaldið geri rekstraráætlanir áður en ráðist er í slíkar fjárfestingar?

En það er fleira sem mér finnst að en skortur á rekstrargrundvelli og það ónáðar mig líka í sambandi við þetta mál. Það kemur fram í frv. að ekki verði öllum starfsmönnum tryggð atvinna, látum það nú vera. En það sem verra er er það sem stendur í frv. um Nýsköpunarsjóðinn, að þeir sem ekki fái vinnu í nýja bankanum fái vinnu í sjóðnum. Nú spyr ég hvort nokkrum detti í hug að það verði blóminn af starfsliðinu, þeir sem hafa mesta reynsluna, sem ekki fær vinnuna í Fjárfestingarbankanum? En Nýsköpunarsjóðurinn á að taka við þeim sem ekki fá vinnu. Ég minni á lög nr. 77 frá 18. maí 1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti. Ef ég les þau lög rétt þá er ekki heimilt við samruna að segja fólki upp fyrir samrunann. Nýi aðilinn þarf að segja fólkinu upp, þannig að ef ég hef skilið þau lög rétt þá þurfa allir starfsmennirnir að byrja í nýja bankanum og svo kemur það á stjórnendur nýja bankans að segja fólki upp.

Herra forseti. Ég hef í máli mínu hér rakið af hverju ég er svo mikið á móti því að stofnaður sé sérstakur fjárfestingarlánabanki nú í lok 20. aldar. Helstu rök mín hafa verið þessi:

Í fyrsta lagi er ekki þörf fyrir nýjan ríkisbanka.

Í öðru lagi er það svo að í öllum löndum heims er það hluti af starfsemi viðskiptabanka að veita langtímalán til fyrirtækja. Íslendingar þurfa ekki sérlausnir í þessum efnum heldur má ná fram mesta hagræði á lánamarkaði með því að núverandi bankar taki þessa starfsemi að sér.

Í þriðja lagi óska íslenskir viðskiptabankar eftir að fá að yfirtaka starfsemi núverandi fjárfestingarlánasjóða.

Í fjórða lagi mun þessi nýi banki, ef af verður, virka mjög hamlandi á alla samkeppni á fjárfestingarlánamarkaði af því að hann fær krossveð í öllum eignum íslenskra fyrirtækja í vöggugjöf.

Í fimmta lagi er ekki rekstrargrundvöllur fyrir slíkan banka miðað við eðlilega arðsemiskröfu.

Í sjötta lagi er langt, langt í frá að það verði unnt að ná eðlilegri arðsemi af þeim 9 milljörðum sem ríkið ætlar að leggja í þennan banka.

Í sjöunda lagi --- og nú má ef til vill fara að tala um dauðasyndirnar sjö --- þá er það einfaldlega vitlaus hugsun sem felst í því að stofna nýjan ríkisbanka í stað þess að leyfa þeim lánveitendum sem fyrir eru á markaðnum að leysa málin.

Ég efast ekki um að tíminn mun leiða í ljós að ég hef haft rétt fyrir mér í þessu máli og jafnframt að síðari tíma söguskoðendur munu dæma þá hart sem standa að þessu máli. Um þá hv. þm. Sjálfstfl. sem nú ætla að standa að því að stofna nýjan ríkisbanka og hamla með því allri samkeppni á fjárfestingarlánamarkaði segi ég þá aðeins þetta og hef það lokaorð mín, herra forseti: Hættið að hjala um einkavæðingu og frjálsa samkeppni, það fer ykkur illa eftir að þið hafið samþykkt þetta frv.