Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 18:28:17 (4444)

1997-03-13 18:28:17# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[18:28]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vitaskuld svar hv. þm. Hann gerði grein fyrir sinni skoðun og getur að sjálfsögðu ekki svarað fyrir aðra og veit kannski ekki glöggt um þeirra hug. Mér fannst hins vegar rök hans það sterk í þessu máli og ég trúi ekki öðru en að rétt væri að menn íhuguðu þau og kölluðu til fleiri aðila. Hæstv. viðskrh. verður vitaskuld að svara því sem hér kemur fram vegna þess eins og ég nefndi áðan að hér er stjórnarþingmaður, hér er þungavigtarmaður að tala á sviði sem hann þekkir út og inn. Við, herra forseti, erum að tala um stofnun á sjóði, við erum að tala um 10 milljarða, við erum að tala um geysilega stórt og afdrifaríkt skref í íslensku efnahagslífi. Það er ekki hægt, herra forseti, að ganga frá því máli öðruvísi en að það sé þá rætt ítarlega eftir að þessar upplýsingar koma fram og þetta sjónarmið sem ég tek undir að verður að skýrast mikið betur ekki síst í ljósi ummæla hv. þm. þar sem hann gat um að hæstv. forsrh. hefði verið með þær skoðanir áður að það bæri að fara aðra leið varðandi þessa sjóði, þ.e. að renna þeim inn í viðskiptabankana eins og hv. þm. lýsti. Hvað hefur valdið sinnaskiptum hjá hæstv. forsrh. veit ég ekki. Hæstv. forsrh. er ekki hér. Hins vegar stendur hann hér að stjfrv. En vitaskuld þarf það að upplýsast í umræðunni eftir þetta hvort og hvers vegna þau sinnaskipti, ef rétt er með farið og ég held að svo sé, af hverju þau sinnaskipti áttu sér stað sem hér hefur verið lýst.