Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 18:52:16 (4450)

1997-03-13 18:52:16# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[18:52]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki misskilið eitt eða neitt í þessu frv. Ég er búin að lesa það mjög ítarlega og greinargerðina með. Ég hef líka lesið mjög ítarlega það frv. sem Alþb. hefur lagt fram um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð. Ég sagði að vissulega væri gerð tilraun og það er vissulega gerð tilraun til að opna fyrir að aðrar atvinnugreinar eigi þarna aðgang en af hverju í ósköpunum, hæstv. ráðherra, eru það bara fulltrúar tveggja atvinnugreina sem eiga sæti í stjórn sjóðsins og af hverju í ósköpunum er þeim tryggð þessi sérstaka aðkoma og af hverju er sérstaklega verið að hygla þeim umfram aðrar atvinnugreinar sem vissulega hafa verið úti í kuldanum vegna ofurvalds þessara greina og sérstaks aðgangs þeirra að þessum sjóðum?

Hvað varðar það frv. sem Alþb. hefur lagt fram þá er þar vissulega opnað fyrir allar greinar, sem er algjör frumforsenda þess að hægt sé að tala um nýsköpunarsjóð, en þar er stjórnin líka skipuð á allt annan hátt. Hún er skipuð af samtökum launafólks, hún er skipuð af fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, af samtökum atvinnurekenda og síðan eru tveir skipaðir af forsrh. án tilnefningar og annar þeirra er formaður. Þar er jafnframt tekið fram að við skipan stjórnarinnar skuli þess gætt að valdir séu menn sem hafa sérstaka þekkingu og/eða reynslu á nýsköpun í atvinnulífi sem hlýtur jú að vera lykilatriði. Annað er það, herra forseti, að tryggja hagsmunasamtökum atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi aðgang að þessum sjóðum eins og lagt er til í þessu frv. Það er því mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra að ég hafi misskilið eitthvað tilgang frv. eða það hvernig það er sett fram.