Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 20:53:38 (4461)

1997-03-13 20:53:38# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[20:53]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að þessi umræða er þegar orðin mjög athyglisverð að einu leyti til. Ekki vegna þess að stjórnarþingmenn hafi talað á móti máli, það hefur oft gerst. En það sem er athyglisvert við málið, þennan Fjárfestingarlánabanka, er aðallega það að meiri hluti efh.- og viðskn. hefur tjáð sig andvígan málinu, meiri hluti efh.- og viðskn. Það eru kaflaskil í málinu. Það eru þeir stjórnarandstæðingar sem talað hafa úr efh.- og viðskn. og tveir stjórnarsinnar eða fimm þingmenn sem eiga sæti í efh.- og viðskn. Oft hefur það verið þannig, t.d. í Landsvirkjunarfrv., að einstakir þingmenn stjórnarflokkanna hafa gagnrýnt málið við 1. umr. en síðan runnið af hólmi í 2. umr. Veruleikinn er hins vegar allt annar þegar kemur að þessu máli. Nú hlýtur það að vera þannig að þeir hv. þm. sem hér hafa talað úr stjórnarliðinu geti fylgt máli sínu eftir. Þeir eru frjálsir eins og hv. þm. Ágúst Einarsson benti á hér áðan. Þeir eru frjálsir og ráða því sjálfir hvað þeir láta koma út úr málinu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði hæstv. ráðherra hversu langt nefndin gæti gengið í breytingum. Nefndin er algjörlega frjáls. Þingið er algjörlega frjálst og þingmennirnir geta komið þeim málum í gegnum nefndina sem þeir ná meiri hluta fyrir í nefndinni. Það er veruleikinn. Þeir eiga í þessu tilviki bæði völina og kvölina.