Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 21:02:01 (4465)

1997-03-13 21:02:01# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[21:02]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki annað en lýst undrun minni á viðbrögðum hv. þm. Geirs Hilmars Haarde sem er einna þingreyndastur þeirra sem hér eru í þessum sal. Honum finnst skrýtið að menn komi upp og inni eftir afstöðu Sjálfstfl. Það hefur gerst í þessari umræðu að eini maðurinn sem hefur talað af hálfu Sjálfstfl. hefur lýst andstöðu við frv. sem hér er undir. Það vill svo til að sá þingmaður sem hér hefur talað af hálfu Sjálfstfl. einn manna er líka sá sem þekktastur er fyrir hvað mesta reynslu á þessu sviði og margoft teflt fram af hálfu Sjálfstfl. sem sérfræðingi í málum sem þessum. Það er því ekkert skrýtið við það þegar þingmenn koma upp og spyrja: Er þetta afstaða Sjálfstfl.?

Herra forseti. Í hverju málinu á fætur öðru hafa sjálfstæðismenn komið í bakið á Framsfl. og reynt að kúga þá og beygja til hlýðni og spurningin er hvort svo sé í þessu máli líka. Það er eðlilegt að menn gangi eftir því hvort fleiri en Pétur Blöndal séu þessarar skoðunar innan Sjálfstfl. Og auðvitað er það líka merkilegt í þessari umræðu að þeir sem koma hér upp og tala af hálfu stjórnarliðsins fyrir utan ráðherra virðast, a.m.k. þeir sem ég hef hlýtt á, finna þessu máli flest til foráttu. Ég verð að segja að ég hef ekki í langan tíma hlýtt á ræðu þar sem málflutningur stjórnarinnar hefur verið tættur niður jafnhnitmiðað og í hinni rökföstu ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals þannig að það er ekkert óeðlilegt við þessa spurningu. (Gripið fram í: Víst.)