Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 21:11:39 (4469)

1997-03-13 21:11:39# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[21:11]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Geir H. Haarde fyrir þessa seinni ræðu sem var að sama skapi drengileg sem hin var fráleit vegna þess að hann lét það koma fram að hann teldi að það væri fullkomlega eðlilegt að einstakir þingmenn kæmu fram með brtt. við frv. og ræddu þær rækilega og jafnvel tilfæringar nefndi hann sem er alveg nýyrði í sambandi við þingsköp. Hann sagði að það væri ekkert óeðlilegt að menn kæmu fram með brtt. og tilfæringar við það frv. sem hér er um að ræða og er það út af fyrir sig fagnaðarefni að þingflokksformaðurinn skuli opna fyrir glufu á frelsi fyrir sína þingmenn í þessu efni.

Ég vil líka þakka honum sérstaklega fyrir þau lofsyrði sem hann viðhafði um efh.- og viðskn. sem hann sagði skipaða völdum mönnum með í fyrsta lagi sérþekkingu, í öðru lagi góðan bakgrunn, í þriðja lagi mikla menntun, í fjórða lagi hæfileika og í fimmta lagi mannkosti að því er þessa hluti varðar þannig að það er augljóst mál að þessi hópur manna hlýtur að vera kjörinn til að taka skynsamlega á málum.

Hins vegar svaraði hv. þm. ekki því grundvallaratriði sem skiptir mestu máli: Hvað samþykkti þingflokkur Sjálfstfl.? Samþykkti hann frv.? (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Samþykkti hann frv. efnislega lið fyrir lið eða samþykkti hann aðeins takmarkaða hluta þess? Ég hef orðið var við það, herra forseti, í vetur og í fyrravetur og á síðasta kjörtímabili að afgreiðslur þingflokks Sjálfstfl. á stjórnarfrumvörpum eru sérkennilegar, virka losaralegar og virka ónákvæmar. Er það þannig með þetta mál líka? Ég spyr: Hvernig er mál af þessu tagi rætt í þingflokki Sjálfstfl.? Er það rætt efnislega lið fyrir lið eða er þessu rennt í gegn án þess að menn hafi hugmynd um hvað þeir eru að afgreiða nema einn og einn sérlega nákvæmur maður eins og hv. þm. Pétur Blöndal?