Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 21:33:33 (4472)

1997-03-13 21:33:33# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[21:33]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir skýr svör við spurningum mínum og biðja hann afsökunar á því að þetta hefur farið fram hjá mér sem hann sagði hér um viðskiptabankana. Þetta er í raun og veru það sem við höfum verið að reyna að segja hér Alþýðubandalagsmenn og verið að vitna í Björgvin Vilmundarson, að það mætti kannski spara --- Björgvin sagði nú milljarð og hann sagði með því að loka 18 útibúum, 9 í Reykjavík og 9 úti á landi án (Gripið fram í: Hann vill hf.) já, reyndar vill hann það líka, en hann leggur á það áherslu að sameina þessa banka og gera þá að hlutafélögum og þá sé hægt að loka sem sagt þessum útibúum og sameina miðstöðvarnar. Í því liggur þessi sparnaður upp á einn milljarð. Ég spurði ráðherrann nokkrum sinnum í dag hvernig hann hefði efni á að neita sér um að gera tillögur um að spara milljarð. Ég reyndar tel að það hefði verið að mörgu leyti eðlilegast í þessu máli að menn hefðu velt því fyrir sér hvort hægt væri að ná samstöðu Íslandsbanka og Búnaðarbankans eða Búnaðarbankans og sparisjóðanna en sennilega erum við komin fram hjá þeirri stoppistöð. Ég veit það ekki. En eins og margoft hefur verið tekið fram af hæstv. viðskrh. þá er þingið frjálst og nú geta menn tekið á hlutunum eins og þeir telja skynsamlegt.

Varðandi fjárfestingarlánasjóðina, þá skil ég hv. þm. þannig að hann telji að eðlilegast væri að þessir sjóðir færu þá inn í viðskiptabankana. Þeir hafa náttúrlega notið þjónustu viðskiptabankanna. Viðskiptabankarnir hafa annast útborgun lána og innheimtu og það er satt að segja eitt atriði sem ekki hefur verið rætt hér í þessum umræðum af einhverjum ástæðum. Ætlar þessi banki að búa sér til nýtt innheimtukerfi eða hvað? Eða ætlar hann að nota þjónustu þessara banka? Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni að það sannist á þessu atriði að hér sé verið að búa til óþarfa millilið sem við höfum ekkert með að gera.