Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 21:36:42 (4474)

1997-03-13 21:36:42# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[21:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hefur undanfarna daga staðið yfir umræða um bankamálin. Ég hef ekki tekið þátt í þeirri umræðu og ég ætla ekki að lengja umræðurnar mjög mikið hér í kvöld, en ég vildi samt í nokkrum orðum lýsa minni afstöðu til þessara mála.

Þó að frv. hæstv. bankamálaráðherra um viðskiptabankana séu ekki undir, þá vil ég samt segja í nokkrum orðum í upphafi máls míns að ég er fylgjandi meginstefnunni sem kemur fram í þeim frumvörpum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að hlutafélagavæða ríkisbankana. Ég tel líka að það sé síðan nauðsynlegt á næstunni að koma þeim í hendur sem flestra í gegnum markaðinn, en gera það varfærnislega og reyna að hafa sem best samráð við starfsfólk bankanna. En ég er þeirrar skoðunar að þegar fram í sækir eigi þeir að vera í einkaeigu. Ég vil að það komi fram hérna.

Að því er varðar síðan þau frumvörp sem hér liggja fyrir, þá er ég andstæðrar skoðunar við hæstv. bankamálaráðherra. Ég sé að vísu að hann hefur tekið sér sögulegan bankamálaráðherra til fyrirmyndar. Það var einu sinni annar bankamálaráðherra í allt annarri heimsálfu sem var þeirrar skoðunar að bankarnir eins og flest annað ætti að vera í ríkiseigu og það var Che Guevara. Hann var þeirrar skoðunar. Góður forveri minn í stóli ritstjóra Þjóðviljans fór og heimsótti hann einu sinni og tók við hann merkt viðtal um bankamál á Kúbu. Mér sýnist að að því er varðar þennan fjárfestingarbanka, þá hafi hæstv. bankamálaráðherra lesið Ferðabók Magnúsar Kjartanssonar sem einu sinni sat hér í þessum sal og tileinkað sér það sem Che Guevara sagði honum um hvernig ætti að byggja upp atvinnulífið, þ.e. með því að búa til nýjan ríkisbanka sem sinnti aðallega fjárfestingum.

Ég er algjörlega andstæðrar skoðunar við þá Che Guevara og hæstv. bankamálaráðherra, Finn Ingólfsson. Ég tel að það sé mjög röng afstaða. Hver er það sem hefur komið fram með sterkust rök gegn því hér í kvöld? Það er enginn annar en hv. formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Geir Hilmar Haarde. Geir Hilmar Haarde hefur flutt sterkustu rökin gegn þessu frv. Hvernig fór hann að því, herra forseti? Með óbeinum hætti eins og honum er lagið, en hann taldi það hér upp að í nefndinni sem á að fjalla um þetta mál sitji fremstu synir og dætur þessa þings þegar efnahagsmál eru annars vegar. Hann jós lofi á hv. þm. Pétur H. Blöndal og tók undir þau orð mín að honum væri gjarnan teflt fram sem sérfræðingi Sjálfstfl. þegar efnahagsmál væru annars vegar. Hann gerði slíkt hið sama við hv. þm. Gunnlaug Sigmundsson og taldi að hann væri meðal færustu sérfræðinga síns flokks. Það liggur fyrir að þessir ágætu tveir félagar okkar, hv. þm. Pétur H. Blöndal og Gunnlaugur Sigmundsson, eru svipaðrar skoðunar og stjórnarandstæðingar í nefndinni, sem hv. þm. jós líka lofi og taldi að væru afskaplega hæfir til þess að fjalla um þessi mál og nefndi þar sérstaklega hv. þm. Ágúst Einarsson. Þeir eru allir sammála um að þau þingskjöl sem hér liggja fyrir séu öll ótæk, þau þjóni ekki þeim hagsmunum sem við vildum þjóna. Og það er hv. þm. Geir H. Haarde sem hefur beinlínis sagt að við eigum að taka mark á þessum sérfræðingum og sjálfur hefur hann sett þá í þessa nefnd sökum sinnar sérfræðiþekkingar. Er það þá þannig að við eigum skyndilega núna að hætta að hlusta á þessa menn? Hvaða rök liggja því til grundvallar? Eigum við ekki líka núna að hlusta á þeirra orð, notfæra okkur þekkingu þeirra og þá reynslu sem þeir hafa heyjað sér í praxís í hagnýtu starfi á þeim markaði þar sem þessi mál eru unnin?

Að sjálfsögðu hljótum við að vega og meta mál þeirra afskaplega vel. Þeir hafa lýst því yfir að þeir eru annarrar skoðunar heldur en kemur fram í þessum þingskjölum. Ég get sagt það alveg eins og er að ræða hv. þm. Péturs H. Blöndals var mjög rökföst og mér fannst hann salla niður þau rök sem hæstv. bankamálaráðherra hefur flutt í þessu máli. Ég get heldur ekki annað en tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal þegar hann sagði að það hefðu verið meinleg örlög þeirra sem stóðu fyrir einkavæðingarráðstefnunni í Perlunni á dögunum að þegar henni lauk, --- hvernig gerðist það? Með því að hæstv. forsrh. fór með hugmyndir ríkisstjórnarinnar í fjölmiðla um hvernig ætti að hefja einkavæðinguna og halda henni áfram. Og hvert átti upphafið að vera? Að búa til nýjan ríkisbanka. Það er auðvitað eins og menn segja hrein þverstæða að ætla sér að reka hagfellda einkavæðingu með því að byrja á því að búa til nýjan ríkisbanka. Og hver eru rökin sem hafa verið færð fyrir því? Ég hef ekki séð nokkur rök fyrir því.

Það er auðvitað þannig og ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að þeir sjóðir sem á að steypa saman í þennan banka bera lítinn arð í dag. Þeir eru dýrir í rekstri og markmið þeirra eru, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, fokin út í veður og vind. Og það er alveg ljóst að það þarf með einhverjum hætti að taka á þeim. Hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin virðast ætla að fara þá leið að búa til nýjan banka úr þessum sjóðum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé miklu betra að taka þessa sjóði og renna þeim saman við viðskiptabankana, alveg án tillits til þess hvort menn ætla að selja þá banka eða ekki. Það mun styrkja þá og auk þess eru þessir bankar nú þegar í starfsemi sem er beinlínis á þeim sviðum sem sjóðirnir vinna á. Ég get því ekki annað en sagt að ég er algjörlega andstæður þessu.

Hvernig stendur þá á því að menn fara þessa leið? Því hefur verið haldið fram í þessum sölum og í fjölmiðlum að þetta sé gert til þess að búa til bankastjórastól fyrir einhverja tiltekna menn sem þessir ágætu herrar vilja koma vel fyrir. Ég held að það hljóti að vera vitleysa. Ég tel ekki að það sé það sem vaki fyrir mönnum. En ég held að það sé hins vegar annað. Hvað er það sem hefur gert það að verkum að pólitísk ítök þessara helmingaskiptastjórna hafa verið jafnsterk síðustu áratugi, jafnvel út alla öldina, og raun ber vitni? Það eru auðvitað hin sterku tök þessara flokka á þessum sjóðum sem eru fyrir í þjóðfélaginu. Í gegnum þá sjóði, beitingu þeirra og misbeitingu hafa þeir haldið völdum sínum og það er auðvitað sú hagsmunagæsla sem vakir fyrir þeim áfram. Þeir ætla sér að búa til nýjan fjárfestingarbanka sem þeir ætla sér algjörlega að stýra eftir sínu höfði, eftir sínum gömlu forskriftum. Það sést bara þegar menn skoða hvernig á að skipa þeim mönnum sem eiga að stjórna þessum bönkum.

Í frv. til laga um Fjárfestingarbanka kemur í ljós að hæstv. iðnrh. á að skipa tvo menn og annar þeirra á að vera samkvæmt ábendingum samtaka iðnaðarins. Sjútvrh. á að skipa tvo menn og annar þeirra á að vera samkvæmt ábendingum atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi. Hvað er hér á ferðinni? Það er einfaldlega það að þessir flokkar eru að skipa þarna til stjórnunar sína menn og síðan Vinnuveitendasambandið sína tvo menn líka. Þannig er ekkert annað á ferðinni hér heldur en að þessir ágætu menn, þessi ríkisstjórn, þessi helmingaskiptastjórn, er að halda sínum tökum sem hafa fært henni völdin í þessu þjóðfélagi áratugum saman. Það er ekkert annað sem fyrir henni vakir en að halda sínum völdum. Og þar með er ekki verið að hafa að leiðarljósi hagsmuni atvinnulífsins, enda hefur það komið fram í þessum sölum að þeir þingmanna stjórnarinnar sem jafnan er teflt fram af hálfu þessara tveggja flokka þegar atvinnulífið er annars vegar, þegar fjármál eru annars vegar, eru allt annarrar skoðunar en hæstv. ríkisstjórn, vegna þess að þeir menn taka faglega afstöðu. Þeir nota forsendur sinnar eigin reynslu til þess að koma fram með sínar skoðanir. Þeir eru ekki að velta því fyrir sér að halda pólitískum tökum áfram eins og hæstv. iðnrh. og þeir félagar í ríkisstjórninni. Það er þetta sem fyrir þeim vakir. Þetta er pólitísk hagsmunagæsla helmingaskiptaflokkanna og ekkert annað.

[21:45]

Þetta vildi ég segja, herra forseti. Ég er algerlega andstæður þessu frv. til laga um stofnun fjárfestingarbanka. Ég hafði ekki mjög mótaðar skoðanir á hinu frv. sem hér lá fyrir um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Í grófum dráttum er ég sammála því markmiði sem þarna kemur fram en þegar við lítum á þennan sjóð er ljóst að stjórn hans á að vera með nákvæmlega sama hætti og fjárfestingarbankans. Þá eru það aftur þessir ágætu félagar, forusta Sjálfstfl. og forusta Framsfl., sem ætla að halda sínum tökum á þessum sjóð. Þeir ætla hvor um sig, sjútvrh. og iðnrh., að skipa sinn fulltrúann hvor og síðan ætla þeir að láta vini sína hjá Vinnuveitendasambandinu skipa hina tvo. Þannig hafa þeir tryggan meiri hluta og geta ráðið þessu áfram, geta útdeilt fjármunum til þeirra sem þeir vilja, notað fjármunina til þess að halda þeim völdum sem þeir hafa byggt upp í gegnum beitingu opinbers fjármagns áratugum saman. Það er ekki neitt annað á ferðinni.

Í örfáum setningum tætti hv. þm. Pétur H. Blöndal niður rökin fyrir Nýsköpunarsjóði. Með því að lesa upp þær greinar sem liggja hér fyrir í formi þessa frv. og greinargerðir að baki þeim sýndi hann fram á hvað þessi sjóður gerir. Hann leiðir til þess að á hverju ári munu vera til útdeilingar 200 millj. kr. Það er furðu lítið og miklu minna heldur en hæstv. iðnrh. nefndi í tölum í ýmsum greinum sem hann skrifaði í aðfara síðustu kosninga, en eins og iðnrh. veit er enginn meiri sérfræðingur í kosningaloforðum Framsfl. heldur en sá sem hér stendur. Það var talsvert meira en 200 millj. sem átti á hverju ári að útdeila í þessum tilgangi. Man hæstv. iðnrh. hvað hann sagði í aðdraganda kosninganna? Hann man það ekki. En ég get hresst upp á minni þessa unga manns, sem virðist að vísu vera farinn að reskjast fyrir aldur fram því að hann er búinn að gleyma öllum sínum loforðum. Hann talaði um milljarð, það ætti að setja milljarð í atvinnulífið, það ætti að gera það. Hér eru 200 millj. sem eiga að koma til þess að styrkja nýsköpun. Maðurinn sem skrifaði grein á grein ofan um nauðsyn þess að styrkja íslenskt hugvit, hjálpa litlum fyrirtækjum. Hvað hefur þessi hæstv. iðnrh., sem skrifaði tvær greinar í dagblaðið Tímann á sínum tíma, í apríl árið 1995, þar sem hann talaði um nauðsyn þess að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er ekki gert með þessu.

Hann talaði líka um það, herra forseti, að nauðsynlegt væri að breyta skattalögunum til þess að auðvelda einmitt litlum fyrirtækjum að efla sjálf sig, innviði sína, með því að veita meira fjármagn og draga til sín meira fjármagn í rannsóknir og þróun, veita skattaívilnanir. Hvar eru þessar skattaívilnanir hans? Þær hafa ekki séð dagsins ljós. Þær munu ekki sjá dagsins ljós.

Hæstv. iðnrh. hefur að mörgu leyti staðið sig afar vel, eins og afrakstur þessa dags hefur sýnt, en það breytir því ekki að hann gaf ákveðin loforð um að búa til umhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem sköpuðu hálaunuð störf fyrir menntað fólk og það er allt annað heldur en flytja inn láglaunastörf í stóriðju, herra forseti.

Ég verð þess vegna að segja það, herra forseti, um þennan Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að ég hef ekki nokkra trú á því í fyrsta lagi að hann dugi til þess að uppfylla þær væntingar sem hæstv. iðnrh. hefur mörgum sinnum gefið með loforðum sínum fyrir kosningar og reyndar eftir þær líka. Ég hef heldur ekki nokkra von um það að þessi sjóður nái að uppfylla þær væntingar sem koma fram í greinargerð með frv. Ég veit að hæstv. iðnrh. lítur ekki á mig sem sérfræðing í þessum málum, enda er ég það ekki. En ég vísa til þess að annar þeirra þingmanna sem hv. þm. og formaður þingflokks sjálfstæðismanna hefur nefnt sérstaklega sem sérfræðinga á þessu sviði, úr hans eigin flokki. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sallað niður þetta frv. með því að benda á innri þverstæður í því, með því að benda á að samkvæmt þeim greinum sem er að finna í frv. getur það ekki náð sínum tilgangi. 200 millj. á ári, herra forseti, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á, sem nást við það að festa 4 milljarða ná auðvitað ekki nokkurri átt.

Þetta vildi ég segja, herra forseti. Ég er á móti báðum þessum frumvörpum en að öðru leyti vil ég segja til þess að gleðja hæstv. iðnrh. að því er varðar önnur bankamálafrumvörp hans, þá kann mig að greina á um tæknilega útfærslu þeirra, en ég er sammála meginefni þeirra að öðru leyti.