Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:01:04 (4476)

1997-03-13 22:01:04# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau viðurkenningarorð sem hann fór um kunnáttu mína að því er varðaði kosningaloforð framsóknarmanna. Hann gat þess jafnframt að það væru fleiri hér inni sem þekktu þau. Ég er viss um að það er rétt hjá hæstv. iðnrh. en ég fullyrði að þá menn er ekki að finna í þingflokki Framsfl. Ég held að það sé leitun á því kosningaloforði flokksins sem þeir eru ekki búnir að svíkja í dag.

Að því er varðaði afstöðu Alþfl. og mína til Fjárfestingarbankans hf. þá er það alveg hárrétt hjá hæstv. iðnrh. að það er samþykkt fyrir því frá síðasta flokksþingi Alþfl. að beita sér fyrir stofnun slíks banka. Það breytir því ekki að ég er á móti því. Ég var á móti því í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá var annar hæstv. iðnrh. að baksa við að reyna að koma slíku máli fram. Ég minnist þess ekki að hann hafi nokkru sinni komið því það langt að það hafi komist hér inn í sal, a.m.k. komst það ekki í gegnum þingflokk Alþfl. og menn vita hvar sá hæstv. iðnrh. er í dag. (Gripið fram í: Farinn til Finnlands.)