Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:09:11 (4484)

1997-03-13 22:09:11# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:09]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér aftur vegna þess að mér finnst satt að segja dálítið sérkennilegt hvernig hæstv. viðskrh. setti þessi mál upp, eins og hann hefði núna loksins leyst 10--15 ára stjórnkerfisþrætu um þessa sjóði. Það er spurning hvort hv. þingmenn hafa áttað sig á því hvaða aðferðir eru notaðar við að leysa þessa þrætu eins og fram kemur í þessu frv. um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Ég ætla aðeins að fara yfir það, herra forseti.

Ég vil segja það áður að ég sé ekki betur en þetta frv. sé stjórnkerfislegur vanskapnaður, burt séð algerlega frá efnahagslegu efni málsins sé það stjórnkerfisleg þvæla. Ég hef satt að segja aldrei séð annað eins mál og ég bið hæstv. ráðherra um að nefna mér dæmi um mál sem í einu og sama frv. heyrir undir fjóra ráðherra. Ein lög mundu lúta boðvaldi fjögurra ráðherra ef þetta verður samþykkt svona. Það gengur ekki, herra forseti.

Það er eins og kunnugt er þannig samkvæmt venjum og hefðum og lögum í Stjórnarráði Íslands að lög og framkvæmd laga lúta í hverju tilviki boðvaldi ákveðins ráðherra. Það kann að vera að aðrir ráðherrar komi að einstökum greinum laga, en þá er það jafnan að frumkvæði þess ráðherra sem hefur húsbóndavald yfir viðkomandi lögum og kallar þá hina ráðherrana til eftir atvikum með sérstökum hætti. Í 1. gr. þessa frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Viðskiptaráðherra annast undirbúning að stofnun fjárfestingarbankans og fer með framkvæmd laga þessara.`` Það stendur hér ,,fer með framkvæmd laga þessara.`` Síðan segir í 5. gr. frv., herra forseti, með leyfi forseta: ,,Sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra fara saman með eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.`` Með öðrum orðum, viðskrh. annast undirbúning að stofnun bankans og fer með framkvæmd laganna en tveir ráðherrar fara þó með það sem lögin snúast um, þ.e. eignarhlut ríkisins, sjútvrh. og iðnrh. í þessu tilviki. En er það þá þannig að þessir tveir ráðherrar fari saman eða hvor í sínu lagi með atkvæði ríkissjóðs á aðalfundi fjárfestingarbankans? Er það þannig? Eða hvernig er með atkvæði ríkissjóðs á aðalfundi fjárfestingarbankans? Ég bið hæstv. forseta og hv. þm. að taka eftir því að það er fimm manna nefnd, það er hvorugur ráðherrann og ekki ráðherrarnir saman, heldur er það fimm manna nefnd sem fer með atkvæði ríkissjóðs á aðalfundi fjárfestingarbankans. Það er í raun og veru þriðji aðilinn í þessu dæmi. Það er í fyrsta lagi viðskrh., það er í öðru lagi sjútvrh. og iðnrh. og það er í þriðja lagi nefnd sem fer með atkvæði ríkissjóðs á aðalfundi fjárfestingarbankans. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Eru einhver dæmi þess að nefnd en ekki ráðherra, stjórnvald, framkvæmdarvald, fari með atkvæði ríkissjóðs? Ég fullyrði, herra forseti, að það er ekkert dæmi til þess, ekkert, vegna þess að þessi uppssetning mála er auðvitað hreinn bastarður miðað við þær venjur og reglur sem tíðkast í Stjórnarráði Íslands.

Í þriðja lagi, herra forseti, er í 6. gr. frv. þetta: ,,Skulu iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra þegar eftir gildistöku laga þessara hefja undirbúning að sölu hlutafjár.`` Bíðum nú hæg, herra forseti. Viðskrh. annast undirbúning að stofnun bankans og fer með framkvæmd laganna en iðnrh. og sjútvrh. eiga að fara með sölu hlutafjár í bankanum. 49% eru í höndunum á hinum tveimur ráðherrunum, iðnrh. og sjútvh.

Og síðan kemur í 9. gr. frv. fjórði ráðherrann til sögunnar því að þar segir, með leyfi forseta: ,,Ríkissjóður ber ábyrgð á þeim skuldbindingum Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem ríkisábyrgð er á við stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.`` Með öðrum orðum, þar er það fjmrh.

Ég vil segja við hæstv. iðn.- og viðskrh. að það hefði verið hægt að leysa þessa kerfisþrætu um sjóðina fyrir löngu ef menn hefðu haft hugmyndaflug til þess að setja þennan pott undir fjóra ráðherra og eina nefnd þannig að málið er ekki leyst með þessu frv. Það er enn þá stjórnkerfisflækja burt séð frá þeirri efnahagslegu hlið málsins sem hér hefur verið rakið. Og ég vil þess vegna segja við hv. efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til meðferðar: Hvað sem efni málsins að öðru leyti líður, þá er frv. stjórnkerfislegur bastarður eins og það lítur hér út. Það má ekki afgreiða það svona nema menn séu að taka ákvarðanir um að breyta vinnubrögðum, stefnu og áherslum í Stjórnarráði Íslands í grundvallaratriðum. En þá er það ekki gert í sérlögum. Það er gert í frumvörpum til breytinga á stjórnarráðslögunum. En eins og þetta lítur út, herra forseti, þá er frv. frá sjónarmiði stjórnarráðslaganna og þeirra venja sem hér tíðkast í stjórnkerfinu alger þvæla. Það er alger þvæla, herra forseti. Og það er allt of snemmt fyrir hæstv. ráðherra að vera montinn af því að hafa leyst 10--15 ára gamla þrætu því að hann hefur ekki gert það. Hún er hér enn þá lifandi komin í hverri einustu línu þessa frv.