Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:16:31 (4485)

1997-03-13 22:16:31# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 728, 424. mál þingsins er frv. til laga um Lánasjóð landbúnaðarins sem ég mæli hér fyrir. Með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða ákvað ég fyrir rúmu ári að skipa nefnd til að undirbúa lagafrv. um sjálfstæðan og óháðan lánasjóð sem var ætlað að sinna þörfum landbúnaðarins og um leið að leysa af hólmi Stofnlánadeild landbúnaðarins. Var það byggt á þeirri niðurstöðu sem varð í ríkisstjórn að reka áfram öflugan og sjálfstæðan lánasjóð er þjóni landbúnaðinum en sameina hann ekki fjárfestingarlánasjóðum annarra atvinnugreina eins og fyrirhugað er að gera og hefur nú verið rætt hér um hríð í hv. þingi síðdegis í dag og kvöld. Þá hafa forustumenn bænda lagt þunga áherslu á að áfram verði starfræktur sjálfstæður lánasjóður fyrir landbúnaðinn. Sameining Stofnlánadeildar landbúnaðarins við aðra sjóði kom því ekki til greina á þessu stigi vegna sérstöðu landbúnaðarins í íslensku atvinnulífi.

Stofnlánadeild landbúnaðarins starfar samkvæmt I. kafla laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Ýmis ákvæði í þeim lögum eru úr takt við tímann og því um hríð legið fyrir að þörf væri á að endurskoða ýmis ákvæði þeirra til er varðar útlán og vaxtakjör og innheimtu sjóðagjalda. En sem kunnugt er hefur 2% neytenda- og jöfnunargjald verið innheimt af heildsöluverði landbúnaðarvara og andvirði þess runnið til niðurgreiðslu á vöxtum vegna útlána deildarinnar.

Samkvæmt lögum er Stofnlánadeild landbúnaðarins deild í Búnaðarbanka Íslands. Bankaráð Búnaðarbankans fer með stjórn Stofnlánadeildar og þegar málefni deildarinnar eru til meðferðar hjá bankaráði taka þar að auki sæti tveir fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands sem fullgildir bankaráðsmenn. Í skýrslu bankaeftirlits Seðlabankans um athugun á nokkrum þáttum í rekstri og efnahag Stofnlánadeildar landbúnaðarins frá því í febrúar/mars 1996 segir m.a., með leyfi forseta:

,,Bankaeftirlitið telur að núverandi fyrirkomulag á stöðu og starfsemi Stofnlánadeildar og hin nánu stjórnunarlegu og starfslegu tengsl við Búnaðarbankann skapi vissa hættu á að ekki sé gætt nægjanlegrar aðgreiningar við ákvarðanatöku. Er því tímabært að þess mati að aðskilja þessar stofnanir með þeim hætti að sjálfstæði í ákvarðanatöku og rekstri Stofnlánadeildar sé ótvírætt. Slík breyting verður þó ekki gerð nema með breytingu á lögum.``

Hæstv. forseti. Að framan hef ég rakið helstu ástæður þess að ég legg hér fram frv. til laga um Lánasjóð landbúnaðarins. Meginbreyting frá núgildandi lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins lýtur að lögformlegu sjálfstæði sjóðsins þar sem auknar kröfur um ábyrgð eru lagðar á herðar stjórnar og framkvæmdastjóra. Í 4. og 5. gr. frv. er kveðið á um hlutverk stjórnar og framkvæmdastjóra og er leitast við að afmarka hlutverk þeirra svo sem kostur er en að öðru leyti fellur sjóðurinn undir lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Frv. gerir ráð fyrir að sjóðurinn veiti einungis lán til bænda og þjónustufyrirtækja landbúnaðarins. Um leið eru heimildir nokkuð rýmkaðar varðandi útlán, m.a. eru lán ekki lengur bundin við lögbýli. Stjórn lánasjóðsins mun síðan setja almennar reglur um lánveitingar og lánskjör.

Áfram verður miðað við að lán verði einungis veitt með veði á 1. veðrétti en þó er heimilt að gera þar undantekningar á ef um er að ræða lán frá öðrum opinberum sjóðum, t.d. Húsnæðisstofnun. Um þá kröfu að lána einungis með veði á 1. veðrétti hefur talvert verið rætt. Mín rök eru þau að sjóðurinn er með ríkisábyrgð og því verður hann að hafa tryggt veð fyrir útlánum sínum. Þá eru vextir á lánum sjóðsins niðurgreiddir gegnum sjóðagjald og eru þeir einhverjir þeir lægstu sem fyrirfinnast á markaðinum nú. Ef menn vilja hins vegar hverfa frá kröfunni um 1. veðrétt verða vextir að hækka vegna meiri útlánaáhættu.

Ein veigamikil breyting er fólgin í því að horfið verður frá innheimtu 1% neytendagjalds og 1% jöfnunargjalds af heildsöluverði seldra landbúnaðarvara. Þess í stað fái sjóðurinn hlutdeild í nýju búnaðargjaldi sem verður 1,1% af stofni þess gjalds. Í þessu sambandi vil ég upplýsa að ég hef einnig látið semja lagafrv. um breytingu á álagningu og innheimtu sjóðagjalda í landbúnaði sem ég mun væntanlega leggja fram innan fárra daga, en þessi tvö lagafrv. þurfa að fylgjast að í meðförum þingsins og meðhöndlun landbn. um málin bæði. Með breytingu á álagningu sjóðagjalda er ætlunin að sameina sjóðagjöld og breyta innheimtu þeirra með það að markmiði að gera innheimtuna einfaldari, öruggari og ódýrari. Við það að breyta innheimtu búnaðargjalds mun gjaldskyldur búvöruframleiðandi greiða á gjalddögum virðisaukaskatts í staðgreiðslu til innheimtumanna ríkissjóðs búnaðargjald af gjaldskyldri veltu. Álagning og afstemming fer síðan fram árið eftir á grundvelli skattframtals. Við þessa breytingu verða heildarsjóðagjöld lækkuð úr u.þ.b. 4% í 2,65% verði þessi frv. samþykkt.

Nú ber að geta þess að þar sem þetta frv. er ekki komið fram, vonandi verður mælt fyrir því í næstu viku, þá er kannski erfitt að gera nákvæmlega grein fyrir því hvernig þessi innheimta fellur saman en það skýrist þegar mælt verður fyrir því frv. nánar og eins að sjálfsögðu í meðferð hv. landbn. á þessum málum báðum. Færi svo að sjóðagjaldafrv., sem við höfum kosið að láta nú heita búnaðargjald ef það yrði að lögum, næði ekki að fá afgreiðslu hér á hv. þingi í vor þá er auðvitað mögulegt og æskilegt að samt sem áður verði þetta frv. til laga um Lánasjóð landbúnaðarins samþykkt og þá með þeim hætti að horfið yrði frá innheimtu neytendagjaldsins sem er 1% en haldið áfram innheimtu 1% jöfnunargjalds af heildsöluverði seldra landbúnaðarafurða. Það á því út af fyrir sig ekki að hafa áhrif á afgreiðslu þessa frv. sem hér er mælt fyrir þó æskilegt væri að málin færu samhliða í gegnum þing. Það skal undirstrikað að í sambandi við búnaðargjaldið hið nýja er ekki um að ræða nýjan skatt heldur er verið að einfalda það innheimtufyrirkomulag sem nú tíðkast. Um leið verða heildarsjóðagjöld lækkuð og þar með dregið úr þeim millifærslum sem verið hafa í landbúnaðarkerfinu.

Gert er ráð fyrir að tekjur Lánasjóðs landbúnaðarins af stofni búnaðargjalds sem síðar verður notað til lánajöfnunar, verði á bilinu 165--170 millj. kr. á ári og er þá miðað við veltu í landbúnaði árið 1995. Þessi tala kann þó að verða eitthvað lægri. Árið 1996 nam samanlögð innheimta neytenda- og jöfnunargjalds rúmum 366 millj. kr. Í frv. um álagningu og innheimtu búnaðargjalds er við það miðað að svokallað stofnlánadeildargjald verði einnig lagt niður, en það var hluti af búnaðarmálasjóðsgjaldinu skv. gildandi lögum sem var 0,1--0,2%. Árið 1996 nam sú fjárhæð rúmum 26 millj. kr. Samanlögð voru gjöld til Stofnlánadeildar landbúnaðarins því rúmlega 392 milljónir árið 1996. Þannig verður heildarlækkun sjóðagjalda til Lánasjóðs landbúnaðarins u.þ.b. 225 millj. kr. miðað við það eins og áður sagði að hlutur lánasjóðsins í hinu nýja búnaðargjaldi verði 165--170 milljónir.

Forsenda fyrir framangreindri lækkun gjaldsins er að vextir útlána hækki á móti tekjurýrnun sjóðsins vegna lægri sjóðagjalda. Nefnd sú sem samdi frv. miðaði við það í útreikningum sínum að útlánavextir nýrra útlána yrði hækkaðir úr 2% í 3% auk annarra lítils háttar tilfærslna útlána milli vaxtaflokka. Þessi leið er að sjálfsögðu fær en einnig kæmi til álita að hækka líka vexti á eldri lánum, en í skuldabréfunum eru heimildir til þess að hækka vextina, sem mundi væntanlega þýða minni vaxtahækkun í prósentum talið. Ég vil á hinn bóginn leggja áherslu á að það verður hlutverk nýrrar stjórnar að reikna þetta út og taka síðan ákvörðun um miðað við ákvæði frv., en að sjálfsögðu getur Alþingi tekið af skarið í þessu efni sé það vilji löggjafans að kveða upp úr um málið í stað þess að láta stjórnina hafa val í þessu efni.

Í 11. gr. er ákvæði um að varðveita raungildi eigin fjár í sjóðnum. Það eru því skýr fyrirmæli til stjórnenda lánasjóðsins að sjá um að svo verði, en er um leið takmarkandi þáttur til eigenda sjóðsins eða ríkissjóðs til að krefjast arðs frá sjóðnum. Miðað er við að Lánasjóður landbúnaðarins taki frá og með 1. janúar 1998 við öllum skuldum og skuldbindingum Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þrátt fyrir að lögin taki ekki gildi fyrr en um næstu áramót, 1. janúar 1998 verði frv. samþykkt, er nauðsynlegt talið að stjórn lánasjóðsins verði skipuð svo fljótt sem kostur er til að undirbúa starfsemi sjóðsins.

Af þessu tilefni tel ég rétt að gefa þingheimi nokkrar tölulegar upplýsingar um rekstur og stöðu Stofnlánadeildar landbúnaðarins eins og hún var í árslok 1996. Á árinu 1996 voru veitt 698 lán samtals að fjárhæð 930,2 millj. kr. og námu þá heildarútlán deildarinnar 9.972,7 millj. kr. Eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi nam samtals 2.329 millj. kr. í árslok. Eiginfjárhlutfall deildarinnar sem reiknað er út samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði var 22,25% í árslok en má lægst vera 8%. Á árinu var hagnaður af rekstri deildarinnar að fjárhæð 169 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi en rekstrarútgjöld námu 62,4 millj. kr. og er því rekstrarkostnaður innan við 0,6% af niðurstöðu efnahagsreikningsins.

Hæstv. forseti. Ég hef hér rakið helstu atriði frv. en vísa að öðru leyti til greinargerðarinnar og athugasemda með frv. Eins og ég hef áður lýst þarf frv. að afgreiðast samhliða væntanlegu frv. er fjallar um álagningu og innheimtu búnaðargjalds sem verður væntanlega lagt fram á Alþingi einhvern næstu daga. Ég vil árétta hér að frv. um Lánasjóð landbúnaðarins og frv. um búnaðarsjóð eru samtengd og þurfa að hafa samflot í gegnum þingið. Ef frv. um búnaðarsjóð hins vegar næði ekki fram að ganga á þessu þingi þarf að breyta frv. um Lánasjóð landbúnaðarins í samræmi við það eins og ég gerði gerði lítils háttar grein fyrir áður í ræðu minni.

Ég vil geta þess að lokum að málefni Stofnlánadeildar landbúnaðarins hafa verið til umfjöllunar á tveimur búnaðarþingum, bæði í fyrra og svo nú á nýafstöðnu búnaðarþingi þar sem lögð var áhersla á að frv. um Lánasjóð landbúnaðarins verði afgreitt sem lög á því Alþingi sem nú situr. Búnaðarþing hefur á hinn bóginn sett fram óskir um að núgildandi lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins verði breytt strax þannig að innheimtuhlutfalli sjóðagjalda verði breytt frá 1. júní næstkomandi í 0,8% gjald í stað 2% gjaldsins nú, án þess að vextir verði hækkaðir á útlánum á móti á þessu ári en væntanlega er þá gert ráð fyrir að hækkunin yrði samt um áramót. Ef þetta gengi eftir hefði það umtalsverð áhrif á rekstrarafkomu Stofnlánadeildarinnar á þessu ári sem nauðsynlegt væri að skoða nánar. Það má þó minna á að rekstrarafkoma var góð og tekjuafgangur á seinasta ári eins og áður kom hér fram, þ.e. 169 millj. kr. Búnaðarþing hefur einnig bent á nokkur önnur atriði sem ekki hafa verið tekið inn í frv. sem rétt er að landbn. skoði um leið og hún fær frv. til athugunar.

Hæstv. forseti. Ég er tilbúinn til að skoða frekar þau atriði sem ég hef hér rætt í samvinnu við landbn. þingsins og leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.