Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:42:19 (4487)

1997-03-13 22:42:19# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:42]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegur forseti. Í sjálfu sér ætla ég ekki að hafa mjög mörg orð um þetta frv. Ég stend að sjálfsögðu að því ásamt þingmönnum stjórnarflokkanna. Það vekur auðvitað spurningar þegar verið er að stofna sérstakan sjóð um lánamál landbúnaðarins á sama tíma og verið er að reyna að einfalda þetta lánakerfi að öðru leyti. Það má segja sem svo að þetta veki spurningar um samræmi og á vissan hátt vekur það líka spurningar um það hvort hér sé endilega verið að gera landbúnaðinum greiða, hvort ekki hefði verið eðlilegra eða heppilegra að landbúnaðurinn fengi að vinna innan sama sjóðakerfis eins og annað atvinnulíf í landinu. Engu að síður er þetta að mínu mati skref í rétta átt frá því fyrirkomulagi sem hefur ríkt og vissulega er verið að hverfa að nokkru leyti frá því mikla millifærslukerfi sem hefur verið í sambandi við lánamál landbúnaðarins.

Lánamál landbúnaðarins hafa verið dálítið önnur en lánamálin almennt í atvinnulífinu. Menn hafa vísvitandi komið upp talsvert miklu millifærslu- og tilfærslukerfi innan þessarar greinar sem við skulum ekki gleyma að hefur haft tiltekin markmið. Það má segja að þetta hafi verið á vissan hátt eins konar aðstoðarkerfi. Þetta kerfi hefur verið hugsað til þess að greiða fyrir tiltekinni starfsemi og tilteknum breytingum í landbúnaðinum. Nú vitum við að eitt af því sem hefur vakið og valdið áhyggjum innan landbúnaðarins og hjá þeim sem hafa fylgst með þróun landbúnaðarins á síðustu árum, er hversu illa hefur gengið að stuðla að nauðsynlegri nýliðun í greininni. Það hefur reynst mjög erfitt fyrir unga bændur að taka við jörðum og hefja búskap einfaldlega vegna þess að menn þurfa að skuldsetja sig og afkoma landbúnaðarins hefur verið slík að miðað við venjuleg vaxtakjör sem hafa náttúrlega verið óeðlilega há og erfið hér á landi þá hefur verið mjög erfitt fyrir unga bændur að hasla sér völl í landbúnaði eins og afkoma greinarinnar hefur verið. Þess vegna hefur mjög vísvitandi verið haldið uppi þeirri vaxtastefnu sem Stofnlánadeildin hefur stundað, þ.e. að reyna að halda niðri vöxtunum með þessum miklu sjóðagjöldum landbúnaðarins, bókstaflega í þeim tilgangi að færa til fjármuni frá þeim sem ekki skulda innan landbúnaðarins og til þeirra sem hafa skuldað og eru að skulda í landbúnaðinum af þessum ástæðum. Auðvitað orkaði þetta mjög tvímælis. Ég var hins vegar að reyna að vekja athygli á þeirri hugmyndafræði sem hefur verið á bak við þetta og þeirri hugsun sem hefur verið á bak við þetta. En ég vil vekja athygli á því að þegar við lesum 6. gr. frv. þá er gert ráð fyrir því að þetta millifærslukerfi verði dregið nokkuð saman. Það kemur fram í athugasemdum við 6. gr. að samanlögð gjöld til Stofnlánadeildar landbúnaðarins hafi verið tæplega 400 millj. kr. árið 1996 eða 392 millj. Hins vegar er gert ráð fyrir því að heildarlækkunin til Stofnlánadeildarinnar þegar þetta frv. hefur tekið gildi og er orðið að lögum, verði um 225 millj. kr. á ári. Og hér er um að ræða nokkuð verulega breytingu á því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði.

[22:45]

Þetta, virðulegi forseti, var þó ekki það sem rak mig í ræðustól núna. Það voru önnur atriði sem ég held að þurfi nauðsynlega að skoða mun betur í hv. landbn. þegar menn fara að fara yfir þetta frv. Hér á ég við gildistökuákvæði frv. um Lánasjóð landbúnaðarins. Mér sýnist, virðulegi forseti, að eins og gert er ráð fyrir því í þeim ákvæðum í 12. gr. frv. og í sérstöku ákvæði til bráðabirgða, þá muni það ekki geta gengið upp. Ég held, virðulegi forseti, að eins og þetta mál er úr garði gert þá sé í því fólgin algjör þverstæða.

Nú vek ég athygli á því að samkvæmt 12. gr. frv. er gert ráð fyrir að lögin um Lánasjóð landbúnaðarins öðlist gildi 1. janúar 1998. Engu að síður er gert ráð fyrir því í þessu ákvæði til bráðabirgða að landbrh. skuli skipa stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins og hún skuli undirbúa starfsemi sjóðsins. Þetta gengur auðvitað ekki upp, virðulegi forseti. Það er ekki hægt að skipa stjórn í sjóð sem ekki er til. Það er ekki hægt að skipa stjórn í einhverjum sjóði sem ekki er búið að setja lög um, sem ekki hafa tekið gildi. Ástæðan fyrir því að ég taldi ástæðu til að vekja á þessu sérstaka athygli er sú að við gengum í gegnum þessa umræðu í samgöngunefnd Alþingis þegar verið var að formbreyta Pósti og síma. Nákvæmlega þetta var uppi á tengingnum. Það var gert ráð fyrir því að starfsemi þess fyrirtækis hæfist um síðustu áramót eins og menn vita og það var nauðsynlegt og það sáu auðvitað allir að það var nauðsynlegt að hefja undirbúning málsins fyrr. Það þurfti einhvern veginn að vera hægt að gera það á þann hátt að hið nýja fyrirtæki á þeim tíma gæti hafið starfsemi sína snurðulaust. Í upphaflegum búningi þess frumvarpstexta var gert ráð fyrir nokkuð svipuðu ákvæði og hérna. En við nánari skoðun sem m.a. studdist við athuganir hinna fremstu lögfræðinga á þessu sviði komumst við að því að þetta gat ekki gengið upp. Það er auðvitað ekkert hægt að fela einhverri stjórn í sjóði sem ekki er búið að stofna með lögum eða ef lögin hafa ekki öðlast gildi. Þá er ekki hægt að fela slíkri stjórn, sem er engin stjórn samkvæmt lögunum, undirbúning málsins. Þannig að niðurstaðan í lögunum um Póst og síma varð sú, virðulegi forseti, að gert var ráð fyrir því í fyrsta lagi að Póstur og sími hf. tæki til starfa 1. jan. 1997. Síðan segir í 7. gr. laganna, með leyfi virðulegs forseta:

,,Samgönguráðherra skipar þriggja manna undirbúningsnefnd til þess að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfrækslu. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga.``

Síðan var gert ráð fyrir því í sérstöku ákvæði til bráðabirgða að samgrh. skipaði eigi síðar en 1. júlí 1996, þ.e. hálfu ári fyrr, undirbúningsnefnd þá sem mælt var fyrir um í þessum lagatexta sem ég var að lesa og að nefndin skyldi taka til starfa þegar í stað. Í umræðunni var að vísu reynt að gera þetta mál og þessa aðferð okkar tortryggilega en það breytti því ekki að þannig gekk þetta fyrir sig og gekk mjög vel. Þessi nefnd fékk nægileg völd til að undirbúa stofnun hins nýja félags án þess að henni væri fært í hendur hið mikla vald sem stjórn hlutafélags hefur. Hún fékk sem sagt völdin til að framkvæma þá nauðsynlegu löggerninga sem voru brýnir til að geta hafið undirbúninginn að stofnun félagsins þannig að tryggt væri að stofnun félagsins gengi sem best fyrir sig. Félagið var síðan skuldbundið af löggerningum þeim sem þessi nefnd hafði skuldbundið félagið af. Ég held, virðulegi forseti, að það væri skynsamlegt að hv. landbn., þegar hún fær þetta mál til meðhöndlunar, reyndi að fara í gegnum þetta mál með svipuðum hætti, kallaði ef til vill fyrir sig fulltrúa þá sem komu að þessu hjá Póst og síma svo ég taki dæmi vegna þess að þar höfum við reynslu og sjálfsagt er að byggja á þeirri reynslu. Til að mynda vek ég í því sambandi athygli á því að Stefán Már Stefánsson, prófessor í lagadeild háskólans, hefur skrifað mikla og góða bók um hlutafélaglöggjöfina og er manna færastur á þessu sviði og var mjög til aðstoðar þegar verið var að undirbúa þessa lagasetningu um Póst og síma.

Á þessu, herra forseti, vildi ég í mikilli vinsemd og að sjálfsögðu vegna stuðnings míns við þetta mál vekja athygli vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkur, hvaða afstöðu sem við höfum annars til lagatextans eða frumvarpstextans í sjálfu sér og þess prinsipps sem að baki býr, og auðvitað nauðsynlegt að lagasetningin sjálf sé þannig að hún standist innbyrðis. Þess vegna, virðulegi forseti, var það mitt meginerindi í þennan ræðustól að vekja athygli á þessu og koma þeim boðum formlega til þeirrar þingnefndar, landbn. Alþingis, sem fær þetta mál væntanlega til meðhöndlunar þannig að þessar athugasemdir mínar sem ég hef reyndar komið á framfæri annars staðar líka lægju alveg fyrir héðan úr þessum ræðustóli og þannig að það lægi þá fyrir í störfum nefndarinnar að þessar athugasemdir hefðu verið gerðar og að á þessu máli hefði verið vakin athygli sérstaklega í ljósi þess að Alþingi hefur sjálft mjög nýlega farið í gegnum þessa vinnu, reyndar á vettvangi annarrar þingnefndar en auðvitað hér í málstofunni líka þegar verið var að ganga frá þessu máli, virðulegi forseti.