Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:59:00 (4491)

1997-03-13 22:59:00# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:59]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað vegna hinnar marxísku fortíðar hv. þm. sem þessi sjálfsásökunarhugsun hefur læðst upp í huga hans núna á síðkvöldinu. Það verður auðvitað að hafa þetta allt saman í huga. Menn verða að hafa þetta allt saman í sögulegu samhengi, virðulegi forseti.

Það sem ég gerði hérna áðan var að vekja athygli á því að þrátt fyrir að ekki væri horfið að öllu leyti frá því millifærslukerfi sem hefði verið við lýði í landbúnaðinum og málum landbúnaðarins, þá var engu að síður degið mjög verulega úr þessu millifærslukerfi. Það hefur kannski farið fram hjá hv. þm. í sögulegum þenkingum hans undir ræðu minni áðan að ég vakti á því athygli að á árinu 1996, þ.e. í fyrra, voru samanlögð gjöld til Stofnlánadeildar landbúnaðarins tæplega 400 millj. kr. en munu lækka á því ári sem lögin tækju gildi, árið 1998, um 225 millj. og það tel ég, virðulegi forseti, að sé nokkurt skref í þessum efnum. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það hefði verið skynsamlegra að ganga skrefið enn þá lengra, en komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að fylgja þessu frv. eins og það er úr gerði gert og gerði það. Það er mjög algengt að þingnefndir taki síðan mál til meðhöndlunar, stjórnarliðar jafnt sem stjórnarandstæðingar, komist að einhverri niðurstöðu um breytingar og standi síðan að því. Þannig var það í sambandi við Póst og síma og í því fólst enginn áfellisdómur meiri hluta samgn. á vinnubrögð heldur eingöngu það að þingnefndirnar eiga að hafa þetta sjálfstæði til þess að vinna að málum og breyta frumvörpum ef það er eðlilegt og horfir til rétts vegar.