Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 23:14:33 (4495)

1997-03-13 23:14:33# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[23:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær ágætu umræður sem hér hafa farið fram um þetta frv. sem hafa að mestu verið málefnalegar ef ég leiði hjá mér stóryrði eins og ,,pólitíska útlánaspillingu`` og ,,helmingaskiptingu milli flokka`` og eitthvað slíkt. Ég læt það bara eiga sig, ég er ekkert að karpa um það neitt sérstaklega. Það geta menn haft fyrir sig, þeir sem þannig vilja tala. En að öðru leyti tel ég að umræðan hafi verið málefnaleg og snúist um efnisatriði frv. Mig langar að fara örfáum orðum yfir það sem a.m.k. hefur verið til mín beint eða það sem ég tel ástæðu til að reyna að gefa frekari skýringar við.

A.m.k. þrír hv. þm. hafa velt því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að setja landbúnaðinn til hliðar eða láta hann standa utan við þá uppstokkun sem nú á sér stað eða fyrirhugað að fram fari varðandi fjárfestingarlánasjóði annarra atvinnugreina. Ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir því í framsöguræðu minni á hverju sú afstaða mín væri byggð að það bæri að fara svo með þennan sérstaka sjóð og vil aðeins árétta það, sem ég veit þó að öllum hv. þm. er ljóst, að það er ekki verið að búa til alveg nýjan sjóð eða nýjan lánafarveg fyrir þessa atvinnugrein. Landbúnaðurinn hefur búið við þessi sérstöku skilyrði eins og reyndar hefur komið fram hjá a.m.k. sumum hv. þm. í gegnum Stofnlánadeild landbúnaðarins, í gegnum sjóðagjöld, í gegnum millifærslukerfi að það hafa verið niðurgreiddir vextir. Við erum hér að stíga ákveðið skref í átt eins og ég held að verið sé að gera á ýmsum fleiri sviðum í sambandi við landbúnaðinn og hef leyft mér að fullyrða að sé að gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar, að við séum að færa landbúnaðinn í annan farveg, nær því sem kallað er markaðskerfi, heldur en gilt hefur að undanförnu. Þess vegna er ég alls ekki sammála því sem fram kom hjá hv. 6. þm. Suðurl. að stöðugt sé verið að njörva landbúnaðinn niður og það gerðist a.m.k. í tíð núv. landbrh. þegar Framsfl. væri ætlað að standa að breytingum og nýsköpun í landbúnaði, þá væri það í öfuga átt, það fullyrði ég að sé ekki rétt. Ég held að þetta séu ekki sanngjörn ummæli og ég minni á breytingar sem gerðar voru í sambandi við endurskoðun á búvörusamningum hvað varðar sauðfjárræktina og fullyrði að í þessu frv. eins og það er hér lagt fram eru umtalsverðar breytingar frá gildandi kerfi þó að enn þá sé gert ráð fyrir því að landbúnaðurinn búi við sérstök lánakjör og að um málið sé fjallað í sérstökum lánasjóði.

Ég minni aftur á það frv. sem væntanlegt er um búnaðargjaldið sem við höfum kosið að kalla svo sem er mikil breyting á því sjóðakerfi sem ríkir í dag, mikið til einföldunar, mikið til lækkunar og er skref í þá átt að draga úr millifærslukerfinu, sem stundum hefur verið kallað svo, einfalda þetta landbúnaðarkerfi og vonandi mæta þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá hv. 1. þm. Vestf. og hann lét reyndar koma fram í umræðum í þingi í gær, ef ég man rétt, þar sem hann velti líka fyrir sér hvort ekki væri hægt að draga eitthvað úr þeim kostnaði sem er við ýmsa milliliði í landbúnaðinum. Ég tel mig vera að reyna að gera það, bæði nú og með væntanlegu frv. og með öðrum breytingum sem eru að gerast í landbúnaðinum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ég fullyrði að hér er verið að stíga skref í þá átt að færa landbúnaðinn nær þessu markaðskerfi sem aðrir atvinnuvegir búa við og hv. 11. þm. Reykn. sagði í lokin --- ég held að hann hafi orðað það svo --- að iðnaðurinn t.d. hefði brotist út úr. En hvort sem við köllum það því nafni eða einhverju öðru, þá er þetta aðlögun sem gerist og hér erum við að stíga stórt skref í þá átt, en mín skoðun er sú að það sé betra að fara hægar í þessu. Þegar hv. 6. þm. Suðurl. talar um offjárfestingu í landbúnaði þar sem ástæðulaust sé að vera að hvetja eða auðvelda útlán eða greiða niður vexti af lánum til fjárfestinga, þá er staðreyndin sú að landbúnaðinum er brýn þörf á nauðsynlegri endurnýjun og viðhaldi eigna og fjárfestinga. Einnig er vissulega áhyggjuefni, og ég deili því með hv. 1. þm. Vesturl. og sjálfsagt fleiri hv. þm., að það þarf að auðvelda nýliðun í landbúnaðinum. Það er vissulega eitt af því sem er vandamál hvað landbúnaðinn varðar og ekki er hægt því að neita eða leyna að það tengist afkomumálum í landbúnaði að nýliðunin er erfið og ég tel að það sé ekki tímabært að taka algerlega af alla vaxtaniðurgreiðslu á lánum til landbúnaðar sem mundi gerast ef við felldum niður sjóðagjöld að fullu og legðum þennan sérstaka lánasjóð niður hvort sem hann heitir nú Stofnlánadeild eða Lánasjóður landbúnaðarins og tækjum upp fulla markaðsvexti með því að færa þetta inn í hinn almenna fjárfestingarsjóð eða fjárfestingarbanka. Það eru mín rök fyrir því að leggja til þá breytingu sem hér liggur nú fyrir og frv. eins og það hefur verið sett fram.

Hv. 6. þm. Suðurl. gerði líka nokkrar athugasemdir við að lítið væri af t.d. tölulegum upplýsingum í athugasemdumum við lagafrv. Ég veit ekki hvort það eru endilega meðmæli með lagafrv. að það sé svo sérstaklega langt eða uppfullt af upplýsingum sem menn hafa góðan og greiðan aðgang að annars staðar. Ég bendi á að nýlega kom út ársskýrsla Stofnlánadeildar landbúnaðar fyrir árið 1996 og ég sé ekki að þetta frv. hefði verið nokkru betra þó ég hefði látið prenta þessa ársskýrslu með frv. eða tölurnar úr henni. Ég skal hins vegar sjá til þess að hv. landbn. fái þessa ársskýrslu til þess að skoða með frv. þannig að tölulegar upplýsingar liggi þar fyrir og ef einhverjar aðrar frekari upplýsingar vantar, þá reynum við auðvitað að verða við því að útvega hv. nefnd þær.

Hv. 6. þm. Suðurl. talaði líka ofurlítið um 11. gr. frv. og sagði að í henni stæði lítið annað en að það ætti að fara vel með fé. Það er auðvitað mikilvægt að menn árétti það og geri grein fyrir því að það er stefnt að því að varðveita raungildi eigin fjár sjóðsins. En það er annað í greininni sem raunverulega er verið að segja og er mikilvægt og það er að niðurgreiðslan eða sjóðagjöldin, þ.e. afkoma sjóðsins sé fyrst og fremst notuð til þess að greiða niður vextina en verði ekki notuð til þess að greiða arð til eigandans, greiða arð í ríkissjóð. Þetta er áréttað í 11. gr. líka og ég vildi aðeins bæta því við annars ljúfar hugleiðingar hv. 6. þm. Suðurl. varðandi það að vel skuli fara með fé almennt talað og ég get verið honum sammála um það.

Aðeins viðbót við það sem hv. 1. þm. Vestf. vék að í sínu máli, þá velti hann vöngum eins og aðrir yfir því hvort þessum lánasjóði eða lánum til landbúnaðarins væri betur komið með öðrum atvinnugreinum. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt og ætla ekki að bæta við það neinu en vil þó minna á það sem ég sagði í lok framsöguræðu minnar áðan að ég væri að sjálfsögðu tilbúinn til þess að skoða frekar ýmis þau atriði sem ég hef velt hér upp, t.d. athugasemdir frá búnaðarþingi og annað sem varðar breytingar vegna búnaðargjaldsins og að hugsanlega verði búnaðargjaldið ekki samþykkt á þingi í vor, þá þarf að gera athugasemdir og breytingar á frv. En ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að ræða breytingar í samvinnu við landbn. þingsins og ég er það mikill, eins og kannski er sagt á ljótu máli ,,parlamentaristi`` eða þingræðissinni að ég vil að sjálfsögðu að þingið fari vel yfir þau frumvörp sem koma frá framkvæmdarvaldinu og ég hef aldrei haft neinar athugasemdir við það að þingnefndir skoði vel þau frumvörp sem koma frá landbrh. eða umhvrh. og vil miklu frekar eiga góða samvinnu við nefndirnar um það sem hugsanlega má betur fara, ef það er niðurstaða nefndarinnar, og þá vonandi í samkomulagi við mig hvaða breytingar geta þar verið til bóta. Aðeins að lokum varðandi athugasemdir hv. þm. um stjórn sjóðsins samkvæmt ákvæði til bráðabirgða, að skipa stjórn Lánasjóðsins strax, þá ætla ég út af fyrir sig ekki að deila við hv. þm. í þessum ræðustól. Þetta mun að sjálfsögðu verða skoðað í nefndinni. Ég get vel hugsað mér að það megi leysa málið með því að skipa sérstaka undirbúningsnefnd en ég vil þó minna á það að þingið er ekki alltaf alveg samkvæmt sjálfu sér og afgreiðir ekki mál ævinlega með sama hætti.

Á seinasta ári samþykktum við ný lög um náttúruvernd. Þar var gert ráð fyrir breytingum á starfsemi Náttúruverndarráðs og stofnun nýrrar ríkisstofnunar sem heitir nú Náttúruvernd ríkisins. Í ákvæði til bráðabirgða þar var gert ráð fyrir því að stjórn Náttúruverndar ríkisins yrði skipuð hið fyrsta og að hún tæki að sér að annast undirbúning starfsemi þeirrar nýju stofnunar. Það var gert, gekk allt eftir. Stjórnin var skipuð síðla síðasta árs en stofnunin tók ekki til starfa samkvæmt lögunum fyrr en um áramót. Þetta nefni ég bara til ábendingar. Það getur vel verið að mönnum finnist að það hátti öðruvísi með hreina ríkisstofnun heldur en lánasjóð af þessu tagi, ég tala nú ekki um ef það er hlutafélag eins og Póstur og sími, þannig að ég hygg að það gæti hafa haft einhver áhrif en að sjálfsögðu læt ég nefndinni eftir að skoða þetta nánar og er tilbúinn til að skoða það með nefndinni.

Hv. 8. þm. Reykv. talaði hins vegar ofurlítið öðruvísi í sambandi við lánamálin, sjóðagjöldin og hækkun eða lækkun vaxta en aðrir hv. þm. gerðu sem virtust hafa mestar áhyggjur af því að vextir skyldu ekki vera færðir af stofnlánum til landbúnaðar í markaðsvexti, en sá hv. þm. hafði miklar áhyggjur af því að e.t.v. ætti að hækka vextina um eitt prósentustig úr 2% í 3 % þannig að skoðanir eru greinilega nokkuð skiptar hvað þetta mál varðar. Ég tel hins vegar að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að færa sig út úr sjóðagjöldunum smám saman og færa landbúnaðinn nær því að takast á við markaðsvexti og að með því skrefi sem hér er stigið, sem vissulega er stórt, sé verið að hækka vextina um við skulum segja 50% í raun eða eitt prósentustug úr 2% í 3% sem er auðvitað mikil hækkun, en það sé nauðsynlegt skref, og ég minni á og bendi á að um það er algjör samstaða í Bændasamtökunum. Nýlegt búnaðarþing hefur lýst yfir stuðningi við þetta frv. sem búnaðarþing tók til umfjöllunar og ef ég vitna til ályktunarinnar, með leyfi forseta, þá sagði þar m.a.:

,,Búnaðarþing 1997 leggur áherslu á að frv. um lánasjóð landbúnaðarins verði afgreitt á því Alþingi sem nú situr.`` Og búnaðarþing áréttar það svo aftur síðar í ályktuninni, að vísu með nokkrum breytingum sem ég greindi frá áðan og sumar hafa verið teknar inn í frv. nú þegar, aðrar ekki en eðlilegt að hv. landbn. skoði frekar.

Ég tel eðlilegt að þetta frv. fari til landbn. Það er hinn eðlilegi siður að frv. fari til fagnefnda eins og hv. 11. þm. Reykn. minnti á. Ég minni á að búnaðargjaldið, sem kemur hér væntanlega inn á næstu dögum í þingið, mun að sjálfsögðu fara til umfjöllunar í landbn. vegna þess að það var varðar mikið álögur á landbúnaðinn, sjóðagjöldin eða breytingar á sjóðagjöldunum svokölluðu. Því tel ég bæði eðlilegt og nauðsynlegt að frv. fari til landbn. en hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að það sé sent hv. efh.- og viðskn. til umsagnar eins og algengt er með frumvörp milli nefnda í hv. þingi.

Að lokum nokkur orð um það sem fram kom hjá hv. 11. þm. Reykn. Ég vil deila þeirri skoðun með honum og vera honum sammála um að það er mikilvægt að landbúnaðurinn njóti sannmælis og að við séum samstiga í því að gera honum sem hæst undir höfði og hann eigi ekki að vera lægra settur en aðrar atvinnugreinar. Ég tel að ég sé að stíga verulegt skref í þá átt með mínu starfi í landbrn. Ég er kannski svolítið ósammála honum og sumum öðrum hv. þm. í hans flokki eða hans samstarfsmönnum í þingflokki jafnaðarmanna hversu hratt við förum í þeirri aðlögun, hversu hratt við förum í þeim breytingum. Ég er í sjálfu sér ekki mikill byltingarsinni og held að það sé farsælla fyrir landbúnaðinn að fara með málin eins og hér er verið að gera og eins og ég hef hugsað mér og hef verið að reyna að vinna. Þess vegna tel ég að það sé ekki tímabært að færa þennan sjóð og þessa lánastarfsemi landbúnaðarins inn undir fjárfestingarbankann sem hv. þm. hefur efasemdir um í sjálfu sér en spyr hvort ekki sé eðlilegt að þessi sjóður væri þó þar inni. Ég tel að svo sé ekki. Hins vegar má kannski minna á það og nefna að það segir í 4. gr. frv. að m.a. eitt af verkefnum stjórnar lánasjóðsins sé að semja við aðrar stofnanir um einstaka rekstrarþætti í starfsemi sjóðsins, þyki það hagkvæmt. Þar er auðvitað átt við það að hér er verið að slíta hin formlegu tengsl lánasjóðsins eða Stofnlánadeildarinnar við Búnaðarbankann. Nú getur stjórnin auðvitað samið áfram við Búnaðarbankann ef hún vill ekki fara að búa til nýja algjörlega sjálfstæða peningastofnun úti í bæ, ef ég má orða það svo, heldur vilji reyna að eiga samstarf við aðrar stofnanir, aðra aðila í því efni og þá má svo sem þess vegna alveg hugsa sér að það yrði samstarf við hinn nýja fjárfestingarlánabanka. Það yrði þá kannski skref í þá átt sem ég hef verið að tala fyrir að færa lánafyrirgreiðslu og lánamál landbúnaðarins smám saman til samræmis við aðrar atvinnugreinar.