Svör við fyrirspurn

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:05:50 (4498)

1997-03-17 15:05:50# 121. lþ. 91.92 fundur 256#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég neyðist til að gera mjög alvarlegar athugasemdir við svör frá hæstv. forsrh. við fyrirspurn sem ég hef lagt fram og snýr að kostnaði vegna ráðstefnu svonefndrar einkavæðingarnefndar, en í svari við 3. tölul. þeirrar fyrirspurnar neitar forsrh. eða forsrn. í raun og veru að svara með vísan til þess að upplýsingar liggi ekki fyrir. Spurningin er svohljóðandi:

,,Hve mikið greiddu ráðuneyti og opinberar stofnanir í þátttökugjöld, sundurliðað eftir ráðuneytum og stofnunum?``

Svar hæstv. forsrh. er: ,,Ekki liggur fyrir hversu mikið opinberar stofnanir og ráðuneyti greiddu í þátttökugjöld.`` Punktur.

Þetta tel ég, herra forseti, algjörlega ófullnægjandi frammistöðu og ég vísa til þess að í 49. gr. þingskapa er eina leiðsögnin sem liggur fyrir um fyrirspurnir en þar segir:

,,Óski alþingismaður upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn er afhent skal forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.``

Allar þessar forsendur fyrirspurnarinnar eru uppfylltar. Hún er skýr, hún er um afmarkað málefni og hún er um málefni sem heyrir undir hæstv. forsrh. Og það er algjörlega óásættanlegt, herra forseti, það er engin frammistaða af hæstv. forsrh. að svara þannig að ekki liggi fyrir upplýsingar sem beðið er um. Það er þess vegna sem fyrirspurnin er lögð fram. Það er verið að óska eftir því að viðkomandi upplýsinga sé aflað og þær séu lagðar hér fram. Það gengur ekki, herra forseti, að ráðherrar í æ ríkari mæli eru að reyna að koma sér undan því að sinna skyldum sínum hvað þetta varðar. Ég mótmæli því.

Ég fer fram á það að hæstv. forsrh. skili nýju svari hér inn til þingsins og ég fer fram á stuðning hæstv. forseta við að þessi réttur okkar þingmanna til að krefjast upplýsinga sé virtur og hann sé varinn. Og ég fullyrði að það er í algerri mótsögn við þróunina í löggjöf á undanförnum árum, upplýsingalög, stjórnsýslulög og aðrar slíkar breytingar sem við höfum verið að gera, að það gerist nú æ algengara að hæstv. ráðherrar svíkist um að svara eins og þeim er þó rétt og skylt.