Svör við fyrirspurn

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:10:02 (4500)

1997-03-17 15:10:02# 121. lþ. 91.92 fundur 256#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:10]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ætli það séu ekki svona 50--60 manns eða kannski í mesta lagi 100 sem hefði þurft að skoða til að vita hvað hefði kostað að senda á þessa ráðstefnu, eða hvað? Þetta er svona klukkutíma verk fyrir Stjórnarráðið þannig að þetta er auðvitað aumlegur kattarþvottur hjá hæstv. fjmrh. í þessu máli. Hins vegar er málið grafalvarlegt vegna þess að það kemur fyrir aftur og aftur og aftur og hefur færst stórkostlega í vöxt að ráðherrar sýni þinginu dónaskap af því tagi sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi hér áðan. Ég gæti í þessu sambandi nefnt svar hæstv. heilbrrh. við fyrirspurn minni um niðurfellingu afnotagjalda af útvarpi og sjónvarpi hjá öldruðum og öryrkjum sem var alveg ótrúlegt. Þannig að það kemur auðvitað fyrir aftur og aftur og það er bersýnilegt að það þarf að vanda um við ráðherrana í þessu máli. Ég tek undir áskorun hv. þm. til hæstv. forseta í þessu efni. Þetta gengur ekki, hvernig menn hafa komið fram við þingið að undanförnu.