Breytingar í lífeyrismálum

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:18:01 (4504)

1997-03-17 15:18:01# 121. lþ. 91.1 fundur 247#B breytingar í lífeyrismálum# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:18]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Um helgina bárust þær fréttir að til væru drög að frv. um lífeyrismál hjá ríkisstjórninni þar sem gert væri m.a. ráð fyrir verulegri skerðingu á möguleikum núverandi lífeyrissjóða.

Þær fréttir sem bárust af málinu gáfu til kynna að hér væri atlaga gerð að lífeyrissjóðakerfinu án samráðs og samstarfs við samtök launafólks. Þetta setti kjaraviðræður í uppnám og fundir voru með hæstv. forsrh. Þetta eru ótæk vinnubrögð að mínu mati, herra forseti.

Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. upplýsi hvernig efnisþættir þessa frv. voru og hvernig þetta frv. er úr garði gert og hvort það hafi átt að takmarka hluta af 10% greiðslu iðgjalda. Ég spyr einnig fjmrh.: Hvað verður með lífeyrissjóði opinberra starfsmanna ef þessar hugmyndir ná fram að ganga, en þar er greitt hærra hlutfall eins og menn vita. Það er ljóst í þessu sambandi að margir renna orðið hýru auga til væntanlegs lífeyrissparnaðar. Það gefst nú tækifæri á morgun að ræða þessi mál í víðara samhengi, ekki síst út frá þeim fréttum um kaup Landsbanka Íslands á hluta í Vátryggingafélagi Íslands.

Ég tel hins vegar brýnt, herra forseti, að hæstv. fjmrh. upplýsi um þetta mál, hvernig það stendur, hverju hafi verið lofað að breyta í þessu frv. af hæstv. forsrh. og hvort hér sé um að ræða þá aðferð að takmarka möguleika núverandi lífeyrissjóða í þeirri uppstokkun sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að standa fyrir.