Breytingar í lífeyrismálum

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:24:19 (4507)

1997-03-17 15:24:19# 121. lþ. 91.1 fundur 247#B breytingar í lífeyrismálum# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:24]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það mjög skýrt fram af því tilefni sem hér gefst að það að tala um skerðingu í þessu sambandi eru hrein öfugmæli, hreinustu öfugmæli. Vegna hvers? Vegna þess að þetta mál snýst ekki um að það sé verið að taka nokkurn rétt af nokkrum manni. Það snýst um það hvort þeir sem greiða í lífeyrissjóði eigi að hafa eitthvað um það að segja hvar þeir fjármunir eru vistaðir eftir að tryggt er að samtryggingunni er náð. Þetta snýst um það hvort einstaklingar sem eru að leggja fé til hliðar eigi að hafa eitthvað um það að segja. Hvers vegna er verið að fjalla um þetta með þessum hætti? Það er vegna þess að vissir lífeyrissjóðir eru séreignasjóðir og taldir gildir og það sem verið er að gera er að reyna að leita lausna, málamiðlunar á milli ólíkra sjónarmiða. Það er engin skerðing sem hér á sér stað. Og ég skal endurtaka að með þetta mál verður farið eins og ætlað var, það verður unnið að því í samráði við aðila á vinnumarkaði.

Vona ég, virðulegi forseti, að þetta skýri málið nokkuð og komi í veg fyrir öfugmæli eins og komu úr munni þess sem hér spurði áðan.