Tillögur ríkisstjórnarinnar um vaxtabætur og barnabætur

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:32:43 (4512)

1997-03-17 15:32:43# 121. lþ. 91.1 fundur 248#B tillögur ríkisstjórnarinnar um vaxtabætur og barnabætur# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:32]

Svavar Gestsson:

Já, það er þannig, hæstv. forseti, að þetta snýst um vinsældir fyrir ríkisstjórnina. Það var ansi athyglisvert. Ég verð að viðurkenna að henni misheppnaðist í þessu máli vegna þess að hún lagði fram tillögur um skattalækkanir sem reyndust vera tóm vitleysa að því er varðaði vaxtabætur og barnabætur. Í vinsældakeppninni mistókst þetta hjá hæstv. fjmrh. Það er auðvitað alveg ljóst að hann gat ekki gert neitt vitlausara í sambandi við vinsældakeppnina ef það var það sem hann var að hugsa um.

Ég hélt satt best að segja að við værum með ríkisstjórn í landinu sem hefði áhuga á því að taka eðlilega á kjaramálum hins almenna manns, m.a. með samningum og viðræðum við aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki gert. Staðan er sú, og ég held ég leyfi mér að hafa það eftir einum af forustumönnum Alþýðusambands Íslands sem ég talaði við fyrir nokkrum mínútum, hann tjáði mér að núverandi vaxtabótakerfi væri betra en sú tillaga sem ríkisstjórnin hefur hér lagt fyrir vegna þess hvernig á þeim málum er haldið. Það er því auðvitað augljóst mál að í vinsældakeppninni hefur hæstv. fjmrh. mistekist í þessu máli.