Tillögur ríkisstjórnarinnar um vaxtabætur og barnabætur

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:33:52 (4513)

1997-03-17 15:33:52# 121. lþ. 91.1 fundur 248#B tillögur ríkisstjórnarinnar um vaxtabætur og barnabætur# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:33]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ef ósk kemur fram um það að halda vaxtabótunum óbreyttum af því að vaxtabótakerfið sé svo gott í núgildandi lögum, þá er sjálfsagt að verða við því.

Varðandi barnabæturnar má ugglaust hugsa sér einhverja aðra útfærslu en ég hef ekki heyrt að nein óánægja hafi komið fram í stórum stíl vegna þess hvernig útfærslan er á barnabótunum. Það er hins vegar umhugsunarvert þegar maður hlustar á ræður hv. alþýðubandalagsmanna í þingsal hvernig þeir taka þessum málum. ASÍ kom á fund ríkisstjórnarinnar og bað ríkisstjórnina um útspil í skattamálum, helst fyrir fram. Ríkisstjórnin hefur nú komið með sitt útspil og þá koma þeir í þingsal, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og amast við því að við séum að færa völdin út í bæ með þessum hætti. Með öðrum orðum er það Alþb. sem á þingi er að reyna að koma í veg fyrir að ASÍ geti haft áhrif á það hvernig við ætlum að standa að breytingum á skattalögum til þess að koma skattalækkunum til almennings í landinu. Það er athygli vert.